132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Veiðimálastofnun.

612. mál
[21:45]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek afdráttarlaust undir orð hæstv. ráðherra um gríðarlega mikilvægt verksvið Veiðimálastofnunar hvað varðar rannsóknir og vöktun alls lífríkis sem lýtur að ferskvatni og að rannsóknir, vöktun og eftirlit fylgi líka lífverunum þó að þær dvelji um tíma í sjó.

Ég tel þetta mjög gott en vildi bara árétta þessar grunnlífríkisrannsóknir og gagnasöfnun sem mér finnst að mætti kannski koma enn þá sterkar fram, sérstaklega í 1. lið 4. gr. Þetta er þó meira til áréttingar en að okkur greini nokkuð á, okkur hæstv. ráðherra, í þeim efnum.

Þegar við lítum á þetta gríðarlega hlutverk Veiðimálastofnunar hvað varðar vöktun og rannsóknir á lífríkinu sem stöðugt auknar kröfur munu verða gerðar til, m.a. vegna aukinnar áherslu á umhverfismál sem verða enn meiri þegar næsta ríkisstjórn tekur við — þau hafa verið frekar slöpp í því í þessari ríkisstjórn nema helst hæstv. landbúnaðarráðherra sem hefur haldið þeim málum á lofti, aðrir síður — hef ég áhyggjur af fjárhag Veiðimálastofnunar. Ég minnist þess við fjárlagagerð í haust að við fengum mjög vel rökstuddar ábendingar og óskir frá forstöðumönnun Veiðimálastofnunar og frá landssamtökum veiðifélaga um að þar þyrfti verulega aukið fjármagn til að standa undir þessum kröfum og til að standa undir þessum mikilvægu verkefnum sem stofnunin hefur. Við því var ekki orðið (Forseti hringir.) heldur átti að skoða málið. Ég inni hæstv. ráðherra eftir því: Getið þið ekki tekið á þessum málum núna? Mér skilst að það sé mjög brýnt.