132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Veiðimálastofnun.

612. mál
[21:48]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Við erum að ræða hér í dag fimm frumvörp sem tengjast veiðimálum í ferskvatni. Mér finnst aðferðafræðin við að búa þau til harla skrýtin. Að vísu hefur valinn hópur manna verið að störfum frá árinu 2001 og það hefur því tekið hálfan áratug að koma þessu í núverandi form.

Ég man ekki eftir því í minni 15 ára sögu á þingi að áður hafi verið farið með þessum hætti í lagasmíð. Ráðgjafar hæstv. ráðherra og sérfræðingar hans hafa kosið þá leið að fara með flatningshnífinn inn í gömlu lögin um lax- og silungsveiði, fletja þau út og úrbeina nánast alla hryggsúluna, skilja þó eftir tvo hryggjarliði. Það eru ákvæði í einum kafla laganna um Fiskræktarsjóð en að öðru leyti er hryggurinn hlutaður í þá fimm búta sem hér koma fram. Ég hef í sjálfu sér ekki athugasemdir við þessi fimm frumvörp sem hér eru eða eðli þeirra og inntak. Ég geri hins vegar sterkar athugasemdir við þessa aðferð sem skilur eftir eitthvert hræ sem er kallað eldri lax- og silungslög.

Af hverju er þetta gert, herra forseti? Jú, vegna þess að hæstv. landbúnaðaráðherra hefur ekki í fullu tré við hæstv. iðnaðarráðherra. Sú er ástæðan. Það er Valgerður Sverrisdóttir, hæstv. iðnaðarráðherra, sem tekur hæstv. ráðherra eins og lítinn lambhrút að hausti og snýr hann niður. Þetta út af fyrir sig gæti verið sniðugt, enda kumrar í hæstv. landbúnaðarráðherra þar sem hann situr mér til vinstri handar. Það er samt ekkert mjög sniðugt þegar maður fer að skoða þetta út frá sjónarhóli löggjafans að átök millum tveggja hæstv. ráðherra leiði til þess að ráðist sé með þessum hætti að lagabálki og hann snúinn svona í sundur eins og visin strá sem undin eru saman í hnút. Það finnst mér ekki jákvæð eða skemmtileg aðferð. Ég geri mér mætavel grein fyrir því að átök kunna að vera innan Framsóknarflokksins, í ráðherraliði hans, en ég spyr sjálfan mig og ætla ekki að óska eftir að forseti svari fyrir mig: Á það að koma niður á lagasetningunni? Á það að leiða til þess óskapnaðar sem við sjáum í þessu, fimm frumvörp sem eru tekin innan úr því gamla en það er látið liggja eftir í móunum eins og gamall og stór þorskur sem rekið hefur á fjöru og er viðfangsefni mýflugna og mávagers? Eftir liggja þessir tveir beinhraukar inni í roðinu sem eru Fiskræktarsjóðurinn, sem hæstv. landbúnaðarráðherra hefur ekki leyfi til að hrófla við af því að hæstv. viðskiptaráðherra setur honum stólinn fyrir dyrnar. Ég veit ekki hvort þetta er mjög til eftirbreytni fyrir unga þingmenn Framsóknarflokksins sem nú eru hugsanlega ekki að stíga sín alfyrstu skref en kannski sín fyrstu skref í áttina að því að reyna að reisa við Framsóknarflokkinn. Þetta finnst mér ekki gott fordæmi.

Þetta, herra forseti, er þó ekki það efni sem ég ætlaði að tala hér um. Ég ætlaði lítillega að drepa á skafanka sem mér finnst vera á frumvarpi til laga um Veiðimálastofnun. Veiðimálastofnun er í senn sett upp í þessu frumvarpi sem rannsóknastofnun ríkisins en líka sem fyrirtæki á samkeppnismarkaði. Við verðum að hafa í huga að rannsóknarumhverfið hefur breyst mjög hratt á allra síðustu árum. Úr námi kemur ungt menntafólk sem hefur orðið sér úti um víðtæka menntun á margvíslegum sviðum, ekki síst raun- og lífvísinda. Þetta fólk er að reyna að hasla sér völl í atvinnulífinu. Eitt af því sem það tekur sér fyrir hendur er rannsóknir. Sem betur fer er rannsóknaflóran að verða miklu víðfeðmari og gróskumeiri en áður. Lífið og samfélagið er töluvert flóknara en það var fyrir 10–15 árum. Eins hafa öll þau rannsóknaverkefni sem verða til í tengslum við t.d. stóriðju og orkuvinnslu leitt til þess að skapast hefur þörf fyrir sérhæft menntafólk sem vinnur að slíkum rannsóknum utan stofnana. Jafnframt hafa verkefnin orðið auðvitað miklu meiri. Ég er þeirrar skoðunar að eiginlega ætti að skoða allar þessar rannsóknastofnanir ríkisins upp á nýtt. Ég hef ekki legið á þeirri skoðun minni þó að ég hafi kannski ekki hugsað hana alveg til þrautar að menn ættu að kanna mjög vel hvort ekki væri hægt að flytja mikið af verkefnum þessara rannsóknastofnana til ýmissa háskólastofnana sem við höfum víðs vegar um landið í dag. Sum þeirra sem beinlínis er hægt að segja að falli að hinu nýja samkeppnisumhverfi sem er í þessum geira atvinnulífsins á einfaldlega að láta vinna í gegnum útboð og skilgreind verkefni sem menn fá að taka að sér.

Ég tel sem sagt alls ekki sjálfgefið að allt það hlutverk sem hér er verið að binda í lög um Veiðimálastofnun eigi að vera hjá þeirri stofnun. Þetta er það sem ég vil almennt segja um verkefni stofnunarinnar og ég hef áður sagt að töluvert af þeirri grunnvinnu sem stofnunin vinnur ætti vel heima hjá t.d. menntastofnun eins og Hólaskóla. Ég ætla ekki að fjölyrða um það hér en mér þótti nokkuð sterk rök að því að Hólaskóli og tengsl hans, bæði við rannsóknir á ferskvatni og lífríki ferskvatns annars vegar og hins vegar fiskeldisrannsóknir, leiddu mig til þeirrar niðurstöðu að töluvert af þeim verkefnum sem eru hjá Veiðimálastofnun mætti allt eins vinna undir hatti hans, verði til að styrkja hann, byggðarlagið þar og hugsanlega líka rannsóknirnar.

Það sem ég vil þó sérstaklega finna að, eða lýsa efasemdum um, er 4. mgr. 5. gr. og 6. gr. sjálf. Í 6. gr. er sagt, með leyfi forseta:

„Veiðimálastofnun er heimilt að taka að sér rannsóknir og önnur verkefni á starfssviði sínu fyrir einstaklinga, félög og stofnanir gegn endurgjaldi.

Þann hluta starfsemi Veiðimálastofnunar, sem rekinn er á viðskiptagrundvelli á samkeppnismarkaði, þar sem stofnunin aflar sér tekna með sölu á rannsóknum, ráðgjöf og annarri þjónustu, skal skilja fjárhagslega frá öðrum þáttum rekstrarins.“

Ég hef í fyrsta lagi stórar efasemdir um að lögbinda eigi með þessum hætti að ríkisstofnun skuli reka töluvert mikla starfsemi sem beinlínis er í lögum skilgreind á samkeppnismarkaði. Ég hélt, herra forseti sem hefur öðrum fremur í þessum sal bæði reynslu og þekkingu á samkeppnismálum, að þetta væri í algjörri andstöðu við þá þróun sem hér hefur orðið í samfélagi okkar varðandi starfsemi hins opinbera á samkeppnismarkaði. Við getum einungis hugsað okkur lítil rannsóknafyrirtæki sem hafa sprottið upp í kringum eintök verkefni ungra vísindamanna sem hafa komið heim frá námi og skoðað þau í samkeppni við niðurgreidda ríkisstofnun um verkefni sem þessi litlu fyrirtæki gætu sinnt, en er með engu móti hægt að segja að þau standi jafnfætis í samkeppninni.

Ástæðan er að sjálfsögðu sú að hér er um stofnun að ræða, herra forseti, sem samkvæmt öllum þeim frumvörpum sem hér hefur verið mælt fyrir í kvöld og á eftir að mæla fyrir, fimm talsins, er bundin til að gefa hæstv. landbúnaðarráðherra álit á ýmsu sem beinlínis getur varðað þessa samkeppni. Í fyrsta lagi er ekki hægt að segja við slíkar aðstæður að þessi litlu fyrirtæki búi við jafnræði á markaði. Í öðru lagi er með engu móti hægt að segja að hægt sé að reisa með þessum hætti einhvers konar brunaveggi milli þess hluta starfseminnar sem er rekin á viðskiptalegum grundvelli og hins vegar einhverju sem samkvæmt frumvarpinu er skilgreint að sé ekki á viðskiptalegum grundvelli. Í þriðja lagi er ég þeirrar skoðunar að í dag sé mjög erfitt að skilgreina grunnrannsóknir sem svo að þær tilheyri ekki lengur samkeppnisumhverfi. Ég held einfaldlega að hið vísindalega umhverfi sé að þróast með þeim hætti. Þess vegna er það niðurstaða mín að þessi grein sé algjörlega út í hött og standist ekki þær kröfur sem gerðar eru í öðrum lögum sem við höfum sett á síðustu árum til opinberra stofnana og jafnræðis á markaði.

Ég tel að þetta sé algjörlega í andstöðu við það sem við höfum reynt að setja hér inn í lög um að sá rekstur sem einkamarkaðurinn getur sinnt eigi ekki að standa í samkeppni við niðurgreiddar ríkisstofnanir. Það er aldrei hægt að greina þessa tvo hluta stofnunar, á meðan þeir eru innan sömu stofnunar, þannig í sundur að ekki sé hægt að halda því fram, og jafnvel sýna fram á það með rökum, að sá hluti sem ekki tengist því sem hér er skilgreint sem samkeppnismarkaður hafi ekki með einhverjum hætti áhrif á hinn hlutann sem stendur í samkeppninni.

Herra forseti. Hérna er í reynd um að ræða nákvæmlega sama dæmi, bara í örsmækkaðri mynd, og við nokkur gagnrýndum á sínum tíma varðandi Landssímann sem annars vegar stóð í samkeppnisrekstri og notaði fjármagn sitt til að kaupa upp fyrirtæki til að bjóða í verkefni og sinnti á hinn vænginn ýmiss konar þjónustu sem ekki var í samkeppnisumhverfi.

Þetta er nákvæmlega sama dæmið. Ég man ekki betur en að úrskurður hafi gengið um það í máli fiskifræðings sem oft hefur hér komið til tals, Jóns Kristjánssonar, þar sem einfaldlega var sýnt fram og felldur úrskurður um það að hann sem rak sitt litla fyrirtæki hafði ekki sama aðgang að markaði og upplýsingum og stofnunin. Menn töldu að það væri ekki við hæfi.

Ég gæti flutt frekari rök fyrir þessu, herra forseti. Ég held líka að síðasta málsgrein 5. gr. styrki ekki það sérkennilega fyrirkomulag sem hér er lagt til. Ég segi fyrir sjálfan mig, án þess að Samfylkingin hafi sem flokkur fyrir 1. umr. tekið einhverja afstöðu til þess, að ég hef verulega sterkar efasemdir um það. Ég er verulega efins um að þetta mál færi svona í gegn í nokkurri sátt, a.m.k. er ég ekki reiðubúinn til að greiða þessu máli atbeina minn á meðan þetta er svona.

Ég veit að ábyggilega eru margir ósammála mér um þetta en ég er þeirrar skoðunar að í vaxandi mæli sé það bara heppilegt og betra að ýmsum tegundum af rannsóknum sem í dag eru skilgreindar sem grunnrannsóknir, ég tala nú ekki um þær sem beinlínis má kalla samkeppnisrannsóknir, sé komið fyrir með þessum hætti.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra, herra forseti, en ég hef hérna lagt fram rökstudda gagnrýni á þennan þátt frumvarpsins. Ég sætti mig einfaldlega ekki við að málum sé svona fyrir komið og að menn leggi fram frumvörp af þessu tagi. Mér þykja heldur litlar líkur á að þetta mál fari nokkru sinni í gegn á þessu vori nema þá að klifrað verði yfir þann þröskuld sem felst að minnsta kosti í mér.