132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Veiðimálastofnun.

612. mál
[22:02]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Það eru bara örfá atriði sem ég vildi koma hérna að frekar. Það er í fyrsta lagi í framhaldi af því sem ég kom að í andsvari við hæstv. ráðherra, ég tel mjög mikilvægt að saman séu komin undir eina stofnun þau verkefni sem upp eru talin í 4. gr. varðandi hlutverk Veiðimálastofnunar. Ég tel að í rauninni skorti svo mikið á varðandi gagnasöfnun, grunnrannsóknir á lífi og vistkerfi vatnafiska og ferskvatns, að það sé mjög brýnt að á því sé tekið heildstætt. Það er bara ekki sú staða sem við stöndum frammi fyrir heldur öll umræðan. Öll samfélagsumræða krefst þess að á þessum vistfræðilegu þáttum, þessum umhverfislegu, sé tekið af festu og ábyrgð, fyrst og fremst gagnvart almannaheill, gagnvart heill náttúrunnar og því að við umgöngumst þessi náttúruverðmæti og þessi gildi þannig að þau skili sér ekki síðri til framtíðarinnar.

Þess vegna er ég m.a. ekki sammála þeim sjónarmiðum sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson kom hér inn á, um að það ætti að líta á þetta fyrst og fremst sem samkeppnisrekstur. Ég tel að þetta sé á engan hátt komið á það stig. Við erum engan veginn komin það langt í öflun grunngagna og vitneskju um þessa þætti að það sé rétt að setja það fram á þann hátt.

Auk þess, við svona lítil verksvið eins og við búum við hér á landi, eða takmarkaða möguleika hjá stofnunum til umsvifa, er mjög mikilvægt að stofnun eins og Veiðimálastofnun fái þessi verkefni, bæði þessi ríkisdrifnu eftirlits- og rannsóknaverkefni en líka að starfsmenn og stofnanir eigi möguleika á að sækja um rannsóknastyrki til ýmissa sérverkefna. (DrH: Einkavæða …) Ekki aldeilis. Ég er bara mjög svekktur yfir þessu frammíkalli hv. formanns landbúnaðarnefndar. Ég trúi því ekki að hún ætli að gera þetta, að einkavæða Veiðimálastofnun. Ég held einmitt að ekki eigi að einkavæða hana. Við eigum að standa vörð um þessi verkefni, við eigum að standa vörð um hlutverk Veiðimálastofnunar eins og þau eru þarna lögð upp. Mér finnst það skynsamlegt og að stofnunin, starfsmennirnir, deildirnar úti um land sem skipta miklu máli, Norðurlandsdeild Veiðimálastofnunar í Skagafirði, á Hólum, í Borgarnesi og á Suðurlandi, skipti miklu máli, bæði í þeirri nærþjónustu og rannsóknum á sínu næsta umhverfi en líka sem öflugur rannsókna- og menntakjarni heima í héruðum sínum. Og það að geta bæði veitt ráðgjöf og stundað rannsóknir, þótt í samkeppni sé, er afar mikilvægt fyrir bæði þá einstaklinga sem starfa og stofnunina í heild.

Ég vil ítreka samt áhyggjur mínar af fjármagni af hálfu hins opinbera til þessara miklu verkefna. Ég ítreka jafnframt að við fjárlagagerð síðasta haust komu fulltrúar Veiðimálastofnunar og Landssambands veiðifélaga til landbúnaðarnefndar og fjárlaganefndar og gerðu grein fyrir því að það vantaði verulega fjármagn til að standa undir og reka afar brýn rannsókna- og eftirlitsverkefni og einnig almenna starfsemi stofnunarinnar. Við afgreiðslu fjárlaga í haust ákvað meiri hlutinn að láta þessi mál ganga fyrir sig þannig að stofnunin fengi ekki nauðsynlega úrlausn á fjárþörf sinni miðað við þau skyldu- og lögboðnu verkefni sem henni bar, og ber, að sinna vegna þess að þessi mál væru í frekari skoðun. Nú fer að styttast í mitt næsta ár og ekki hafa komið neinar úrlausnir eða tillögur um það hvernig stofnunin eigi að axla þessi verkefni sín fjárhagslega. Það er mjög miður og ég spyr því hæstv. landbúnaðarráðherra: Hvað líður því að koma til móts við fjárþörf Veiðimálastofnunar sem lá mjög ljós fyrir í haust? Okkur var kynnt hún bæði í landbúnaðarnefnd og fjárlaganefnd og er afar brýnt að tekið sé á henni. Það er mjög brýnt að þessi stofnun geti sinnt rannsókna-, eftirlits- og þjónustuverkefnum á þessu gríðarlega mikilvæga sviði á fullnægjandi hátt. Við vorum hér í umræðu fyrr í dag að tala um miklar tekjur og tekjumöguleika af lax- og silungsveiði, upp á milljarða króna og gátum vænst þess að þær gætu aukist enn. En það gerist ekki nema því sé fylgt eftir með öflugum rannsókna-, þróunar- og eftirlitsstörfum og þá er það Veiðimálastofnun sem hefur það verkefni.

Ég ítreka stöðu þessara mála. Það var ljóst í haust að þarna vantaði verulega fjármagn og ég spyr hæstv. ráðherra hvenær sé að vænta úrlausna fyrir Veiðimálastofnun þannig að hún geti í raun axlað þá gríðarlega miklu og mikilvægu ábyrgð sem þessi lög leggja henni á herðar.