132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Fiskrækt.

613. mál
[22:22]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hér er verið að leggja fram frumvarp til laga um fiskrækt. Við vitum að það er starfandi Fiskræktarsjóður í landinu, hann hefur gegnt mikilvægu hlutverki. Við vitum líka um fullan hug hæstv. landbúnaðarráðherra til þess að breyta lögum um hann. Hér er lagt fram frumvarp þar sem ekki er minnst orði á Fiskræktarsjóð. Hæstv. ráðherra upplýsir að það sé vegna þess að skiptar skoðanir séu um hann.

Mig langar að spyrja hæstv. landbúnaðarráðherra: Millum hverra eru skiptar skoðanir? Fólst svarið e.t.v. í því að hann laumaði því út úr sér undir lok ræðu sinnar að búið væri að setja niður sérstaka sáttanefnd undir forsæti hæstv. forsætisráðherra til að miðla málum á millum hans og hæstv. iðnaðarráðherra? Eru deilurnar í ráðherraliði Framsóknarflokksins farnar að há eðlilegu löggjafarstarfi af þeirra hálfu og okkar sem hér sitjum? Ég fæ ekki dregið aðra ályktun en þá að þeir úfar sem risið hafa millum ráðherra Framsóknarflokksins séu að komast á svo alvarlegt stig að hér þurfi að fara mjög óhefðbundnar leiðir við lagasetningu.

Hér leggur hæstv. ráðherra fram mörg lagafrumvörp sem hann býr til upp úr gömlu frumvarpi. Hann lætur það samt liggja lifandi enn þá þó að það geti varla lífsanda dregið. Eftir standa tvö ákvæði og þau eru um Fiskræktarsjóð. Ég hef aldrei séð svona undarlega vinnuaðferð við lagasetningu og frumvarpsgerð.

Það er hins vegar skiljanlegt í því ljósi að það er greinilegt að það er, a.m.k. í þessu máli, ekki talsamband á millum hæstv. viðskiptaráðherra og landbúnaðarráðherra. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Er hæstv. viðskiptaráðherra með þessu móti að verja stóriðjuna og Landsvirkjun gegn því að greiða lögmæt (Forseti hringir.) framlög til fiskræktar í landinu?