132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Fiskrækt.

613. mál
[22:47]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Hér hefur farið fram mikil og góð umræða um þessi frumvörp öll, nú síðast um fiskræktina. Vakið hefur athygli að menn hafa sest niður til að reyna að ná samstöðu um gjaldið til Fiskræktarsjóðs. Ég vil um það segja hér að gjaldið sem raforkuframleiðendum, Landsvirkjun, Rarik, Orkubúi Vestfjarða og Orkuveitu Reykjavíkur, ber að greiða í Fiskræktarsjóð er þrjú prómill af raforkusölu þeirrar raforku sem framleidd er af vatnsaflsvirkjunum. Á árinu 2005 greiddu raforkuframleiðendur 10,6 millj. kr. en hefðu í rauninni átt að greiða meira því að fyrir einum 17–18 árum gerðu Fiskræktarsjóður og Landsvirkjun samkomulag þar sem þessi upphæð var lækkuð og er nú í Fiskræktarsjóði verið að fara yfir þau mál.

Áætlaðar heildargreiðslur í sjóðinn frá raforkuframleiðendum eru um 34 millj. kr. á árinu 2008 þegar greiðslur fara að berast vegna raforkusölu frá Kárahnjúkavirkjun. Þá má gera ráð fyrir að greiðslur vegna eldri stórnotenda, Alcans, Járnblendifélagsins og Norðuráls, geti numið 16 millj. kr. á ári en núgildandi samningar renna út á árunum 2015–2020. Einnig greiða veiðiréttareigendur 2% af tekjum sínum í sjóðinn. Heildartekjur sjóðsins voru um 25 millj. kr. á árinu 2004. Þess vegna er ljóst að ef við náum samstöðu um óbreyttar greiðslur — ég er talsmaður þess, þrjú prómill áfram — verður þetta gríðarlega sterkur sjóður sem getur staðið vörð um náttúruna og lax- og silungsveiði, auðlindina okkar, sem ég tel mjög mikilvægt.

Ég get nefnt sem dæmi að veiðigjaldið í sjávarútvegi er gjald sem lagt er á auðlind og er nú kr. 1,99 á hvert þorskígildiskíló og skilar ríkissjóði um 700 millj. kr. á ári. Gjaldið rennur síðan m.a. til rannsókna í greininni. Fjármunir sem varið er til Fiskræktarsjóðs nýtast til rannsókna á náttúru og vatnafari, um 90% af ráðstöfunarfé sjóðsins er varið til rannsókna. Landsvirkjun hefur vissulega haldið því fram að ójafnræði sé á milli raforkuframleiðenda þar sem gufuaflsvirkjanir greiði ekki samsvarandi gjald. Gufuaflsvirkjanir valda ekki sambærilegri röskun á vatnafari og fiskgengd og vatnsaflsvirkjanir. Gjaldið sem raforkuframleiðendur greiða í Fiskræktarsjóð er mjög lágt og hefur ekki áhrif á rekstur viðkomandi fyrirtækja. Tekjur Landsvirkjunar voru um 13–14 milljarðar árið 2003. Í því samhengi virðist ekki sem 10 milljónir séu há greiðsla. Í þessu samhengi geta menn velt fyrir sér mögulegum tekjum af veiðileyfasölu, t.d. í Þingvallavatni, ef stóri urriðinn gengi í vatnið með sama hætti og gerðist fyrir virkjun.

Í þessu sambandi má einnig vekja athygli á að ekki væri óeðlilegt að gufuaflsvirkjanir greiddu samsvarandi gjald til rannsókna á háhitasvæðum landsins sem vissulega raskast með tilkomu virkjananna. Greiðsla vatnsaflsvirkjana til náttúrufræðirannsókna í Noregi og Svíþjóð er margfalt hærri á framleidda orkueiningu en gerist hér á landi.

Hver er munurinn á gjaldi og skatti? Skattur er framlag til ríkisins, gjald er t.d. félagsgjald, greiðsla. Íslensk málstöð skilgreinir greiðslu Landsvirkjunar í Fiskræktarsjóð sem gjald, enda er þetta ekkert annað en gjald til náttúrunnar fyrir þá áhættu sem tekin er þegar vatnafarvegum er breytt er menn fara í virkjanir sem hafa áhrif. Mér finnst þetta sanngjarnt gjald.

Það hefur auðvitað verið farið yfir þessi mál og hvaða þýðingu þau hafa. Við erum öll sammála um það hér í dag, og það hefur komið fram í mörgum ágætum ræðum, hvað við stöndum í rauninni vel með auðlind okkar. Veiðin hefur vaxið og auðlindin er dýrmætari en fyrr, þessi lax- og silungsveiðiauðlind. Víða um heim hafa búsvæði lífvera í ferskvatni minnkað og skaðast vegna framkvæmda og athafna mannsins. Laxfiskar eru viðkvæmir fyrir umhverfisbreytingum og hafa stofnar margra þeirra minnkað verulega eða horfið. Virkjanir í ám og vötnum skýra hluta af þessari röskun búsvæða. Víða um lönd hafa augu manna beinst að leiðum til að lágmarka neikvæð áhrif virkjana, bæði nýrra virkjana en einnig hafa verið gerðar endurbætur á eldri mannvirkjum til að minnka þann skaða sem þær ollu. Jafnvel hafa skaðlegar eldri virkjanir verið fjarlægðar.

Atlantshafslaxinn á í vök að verjast og mjög hefur gengið á stofna hans sem er auðvitað stórhættulegt fyrir heimsbyggðina alla. Útbreiðslusvæði hans hefur einnig minnkað. Staða stofna hér á landi er betri en víðast hvar erlendis, en ekki er sjálfgefið að svo verði áfram. Það hefur einnig gengið verulega á silungsstofna víða um heim. Þessu skulum við Íslendingar átta okkur á.

Víða um lönd eru sett ströng skilyrði í starfs- og rekstrarleyfi virkjana. Skilyrðin felast í aðgerðum til að lágmarka neikvæð áhrif, ýmiss konar mótvægisaðgerðum á áhrifasvæðum, vöktun á lífríki í fiskstofnum sem og greiðslum í fiskræktar- og rannsóknasjóði. Það er munur á milli landa hvernig þessu er háttað en víða í löndum í kringum okkur þurfa orkufyrirtækin að standa undir kostnaði vegna rannsókna og mótvægisaðgerða vegna orkuvinnslu í fallvötnum. Við vitum að hér á landi hafa eigendur auðlinda, eigendur jarða, náð samningum við Landsvirkjun um mikilvæg og góð atriði sem skipta auðlindina máli.

Þetta er mjög stórt mál sem við höfum farið hér yfir í dag og auðvitað væri áhugavert fyrir hv. landbúnaðarnefnd að fara enn betur yfir þennan samanburð, hvernig nágrannaþjóðir og laxveiðiþjóðir hafa staðið að fiskræktarmálum sínum og hvaða kröfur eru gerðar til orkufyrirtækja með vatnsaflsstöðvar o.s.frv. Ég held að það sé mikilvægt verkefni landbúnaðarnefndar að fara yfir alla þá þætti. Ég vonast til að stjórnarflokkarnir nái sem fyrst saman um það verkefni sem nú hefur verið sett í gang og forsætisráðuneytið stýrir til þess að ná samkomulagi landbúnaðarráðuneytisins, iðnaðarráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins um hvernig gjaldtakan til Fiskræktarsjóðs verður áfram. Það hefur mikla þýðingu að sú stefna verði sem fyrst mótuð.

Ég get tekið undir það sem hér hefur komið fram, ég trúi því að við séum að setja vandaða löggjöf sem þess vegna muni vara næstu 30 árin. Við erum hér í þýðingarmiklu verki um dýrmæta auðlind íslensku þjóðarinnar í dag.

Ég vil svo bara að lokum þakka þá prýðilegu og málefnalegu umræðu sem hér hefur farið fram um öll þessi frumvörp.