132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Fiskrækt.

613. mál
[22:56]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. landbúnaðarráðherra hélt svo ágæta ræðu núna í lokin að maður fór að velta fyrir sér hvort hann væri nokkuð lengur í Framsóknarflokknum. Hann talaði um umhverfismál og um mikilvægi þess að rannsaka lífríkið og viðhalda því og talaði af miklum næmleika og innileika sem gladdi hjarta mitt. Ég hélt að þessar raddir væru algjörlega horfnar úr þessum flokki. Þetta speglast að vísu í þeim ummælum sem hæstv. ráðherra hafði hér um að við stæðum frammi fyrir því að iðnaðarráðherra gengi erinda stóriðjunnar og stóru vatnsaflsvirkjananna til að verja þær fyrir eðlilegri þátttöku í að leggja til rannsókna- og þróunarstarfs varðandi lífríki vatna.

Ég kom til að spyrja hæstv. ráðherra um þessa nefnd sem sett er undir hæstv. forsætisráðherra: Eru henni sett einhver tímamörk eða er þess að vænta að ekkert gerist fyrr en við erum laus við hina framsóknarráðherrana úr ríkisstjórninni og ríkisstjórnin er frá? Ég upplifi þessa umræðu, og hef upplifað hana þannig á undanförnum árum, að ekki sé að vænta í sjálfu sér mikillar stefnubreytingar í þessum málum, hvorki frá hæstv. iðnaðarráðherra né forsætisráðherra. Það er í rauninni landbúnaðarráðherra hér sem ber fána umhverfisins að því marki sem gert er af hálfu þessarar ríkisstjórnar.

Ég ítreka líka að í gegnum fjármagnið til þessa málaflokks ráðast málin (Forseti hringir.) og þar bendi ég á hinn mikla fjárhagsvanda Veiðimálastofnunar.