132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Fiskrækt.

613. mál
[22:58]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni hlý orð í minn garð. Já, það er mikið til af umhverfissjónarmiðum í Framsóknarflokknum og við elskum þetta land og náttúru þess. Það eru rík sjónarmið og Framsóknarflokkurinn var kannski fyrstur allra stjórnmálaflokka til þess að vekja athygli á náttúru þessa lands, meðferð hennar. Ég hygg að Eysteinn Jónsson hafi verið einna fyrstur og mikill forustumaður í náttúruverndarmálum á síðari hluta stjórnmálaferils síns. Rödd hans var sterk í Framsóknarflokknum og sem betur fer er hún enn sterk.

Framsóknarflokknum hefur verið núið því um nasir að hann hugsi einungis um ál og stóriðju. Það er bara alls ekki rétt. Það er lítill hluti af atvinnusköpun sem vissulega hefur sínar takmarkanir, og byggðarlögin gera kröfu um slík verkefni. Þar þurfum við að fara varlega. Viðhorfin hafa breyst í þjóðfélaginu, bæði innan Framsóknarflokksins og annars staðar. Nú dettur engum það í hug sem gert var fyrir 10 árum þegar menn ætluðu með línur frá Eyjabökkum allt suður á Keilisnes til að leiða rafmagnið í álver þar. Nú dettur engum þetta í hug þannig að sem betur fer eru náttúruverndar- og náttúrusjónarmiðin ríkari.

Þessar spurningar um að ná niðurstöðu í þetta mál snúa ekki bara að einhverri deilu á milli mín og hæstv. iðnaðarráðherra. Þarna að kemur auðvitað samstarfsflokkurinn, og sitt sýnist hverjum. Landsvirkjun hefur hér, eins og rakið hefur verið í dag, haft uppi viðhorf í þessu máli og viljað ná breytingum fram þannig að ég held að það sé mjög mikilvægt að við í stjórnarflokkunum — og þess vegna er gott að eiga samstöðu stjórnarandstöðunnar um málið — (Forseti hringir.) náum sem fyrst niðurstöðu hvað þetta varðar, hvernig Fiskræktarsjóðnum verður skipað til framtíðar.