132. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2006.

Staða efnahagsmála.

[13:54]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Að undanförnu hafa okkur borist viðvaranir um stöðu íslenskra viðskiptastofnana og banka og fjárfestingarfyrirtækja frá ýmsum erlendum eftirlits- og matsfyrirtækjum. Varað hefur verið við miklum lántökum erlendis og bent á hækkun vaxta erlendis, m.a. af skuldabréfum og annarri fjármögnun íslensku bankanna. Útgjöld hafa vaxið langt umfram landsframleiðslu og viðskiptahallinn var yfir 160 milljarðar eða 16,3% á síðasta ári.

Fjárfestingar og einkaneysla hefur vaxið mikið þrátt fyrir samdrátt í opinberri fjárfestingu upp á 13,5%. Verðbólga síðustu þriggja mánaða jafngildir nærri 6% verðbólgu á heilu ári. Verðbréfaskuldir almennings munu hækka og vextir banka eru að hækka, m.a. á húsnæðislánum. Erlendar skuldir halda áfram að aukast og viðskiptahallinn verður áfram mikill miðað við spá árið 2006, eða allt að 13%, um 130 millj. kr. miðað við óbreytta landsframleiðslu.

Bankarnir hagnast vel á miklum vaxtamun, af almennum lánveitingum innan lands. Erlendar skuldir eru mikið áhyggjuefni og um það segir Óskar Þór Karlsson í leiðara í Fiskifréttum sem mig langar að vitna til, með leyfi forseta:

„Hvað með hina gríðarlegu skuldabyrði þjóðarbúsins í erlendum gjaldeyri sem nemur 2.500 milljörðum kr.? Vaxtahækkunin hjá Seðlabanka Evrópu um 0,25% kostar þjóðarbúið 3,5 milljarða kr. aukalega árlega. Það samsvarar nettógjaldeyristekjum af nýliðinni loðnuvertíð og ríflega það.“

Það er ástæða til að velta þessum staðreyndum fyrir sér, hæstv. forseti.