132. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2006.

Staða efnahagsmála.

[13:56]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Íslendingar eru rík þjóð og það er engin ástæða til efast um að þeir eigi bjarta framtíð. Eftir að framsýnir stjórnmálamenn náðu að sannfæra Íslendinga um að þeir ættu að ganga í Evrópska efnahagssvæðið hefur þeim aldrei í sögunni gengið eins vel.

En þrátt fyrir þetta er stöðugleikinn í efnahagsmálum undir áralangri forustu sjálfstæðismanna kominn á það stig að varla má greiningardeild í útlöndum hósta án þess að krónan fái kvef. Og menn bíða í ofvæni eftir hverri skýrslu frá matsfyrirtækjum til að sjá hvort hún fái líka lungnabólgu.

Við þessar aðstæður hafa bæði hæstv. viðskiptaráðherra og forustumenn í sjávarútvegi sagt að það sé tímabært að skoða upptöku evrunnar. Við gerum það hins vegar ekki nema að ganga í Evrópusambandið. Ég tel að við þessar aðstæður sé rétt að skoða í fullri alvöru hvort Íslendingar eigi ekki að undirbúa inngöngu í Evrópusambandið. Það er það sem íslensk ríkisstjórn ætti að vera að undirbúa í dag í staðinn fyrir að ýta undir þenslu með óraunhæfum væntingum um stóriðju, eins og hæstv. forsætisráðherra hefur ítrekað gert, eða með röngum stjórnvaldsaðgerðum sem hafa ýtt undir lántökur almennings og einkaneyslu.

Við þurfum stöðugleika í efnahagsmálum alveg eins og við þurfum stöðugleika í varnar- og öryggismálum og Sjálfstæðisflokkurinn hefur um árabil borið ábyrgð á hvoru tveggja. Afleiðingin er sú að við búum ekki við stöðugleika um öryggi landsins. Við búum heldur ekki við stöðugleika í efnahagsmálum eins og hver skýrslan frá innlendum og erlendum sérfræðistofnunum og sérfræðingum hefur sýnt ítarlega fram á. Undir forustu Sjálfstæðisflokksins í efnahagsmálum höfum við nú slegið Íslandsmet í þenslu. Við erum Evrópumeistarar í dag í verðbólgu og við erum líklega um þessar mundir að slá heimsmet í viðskiptahalla.

Hæstv. fjármálaráðherra var efnislega að segja að það þyrfti ekki að gera neitt. En frú forseti. Það er vísasta leiðin til að láta taka sig í bólinu (Forseti hringir.) alveg eins og Sjálfstæðisflokkurinn hefur fengið að reyna á síðustu (Forseti hringir.) vikum í öryggis- og varnarmálum Íslendinga. (Forseti hringir.)