132. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2006.

Staða efnahagsmála.

[13:58]
Hlusta

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Íslenska hagkerfið er opið, frjálst og sveigjanlegt. Nýleg dæmi sýna hve mikilvægt er að forustumenn stjórnvalda og fjölmiðlar fjalli um efnahagsmál af ábyrgð og yfirvegun því það sem frá þeim kemur getur haft mikil áhrif á þróun efnahagsmála. Það er því mikilvægt að almenn umræða um efnahagsmál sé yfirveguð og án upphrópana og gætt sé að samhengi hlutanna.

Erlend matsfyrirtæki eru af og til að gefa út lánshæfismat fyrir ríkissjóð og fjármálastofnanir. Einnig hafa slík fyrirtæki gefið út horfur á lánshæfismati. Að sjálfsögðu er mikilvægt að allir aðilar skoði þessar greiningar og geri sér grein fyrir hvað þarf að gera til að við höldum þeirri góðu stöðu sem við höfum haft að þessu leyti.

Nýlega kom út eitt slíkt mat og sneri það ekki síst að bankakerfinu. Viðbrögð bankanna hafa verið þau að þeir hafa brugðist við ábendingum og farið í aðgerðir í því sambandi. Það er jákvætt og til þess fallið að halda góðri stöðu. Íslenskir bankar hafa aukið mjög umsvif sín erlendis og tekjur þeirra þar hafa vaxið mjög mikið. Þó svo að íslensk fyrirtæki hafi aukið mjög skuldir sínar erlendis þá verður einnig að hafa í huga að eignir þeirra hafa aukist mjög verulega á alþjóðlega vísu. Það er því mikilvægt fyrir þau að taka mið af ábendingum til að styrkur þeirra minnki ekki og það hafa þau verið að gera.

Hið opinbera verður einnig að skoða ábendingar matsfyrirtækja og bregðast við ef þörf er talin á því. Það er mikilvægt að hið opinbera beiti aðhaldi í útgjöldum er varða rekstur og ekki síður fjárfestingar. Ábyrgð okkar er mikil að þessu leyti og því hljótum við sífellt að skoða leiðir til að halda niðri aukningu í útgjöldum.

Því er gjarnan haldið fram að aðhald skorti í ríkisfjármálum, ekki síst af stjórnarandstöðunni hér á Alþingi. Á sama tíma eru oftast umræður um að fjármagn vanti í hin ýmsu verkefni. Það er því oft lítil brú í þessum málflutningi, virðulegi forseti, og það birtist gjarnan þegar rætt er um fjárlög íslenska ríkisins.