132. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2006.

Þjóðskrá og almannaskráning.

566. mál
[14:12]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um þjóðskrá og almannaskráningu, nr. 54/1962, með síðari breytingum, og frumvarpi til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna flutnings á þjóðskrá og almannaskráningu frá Hagstofu Íslands til dómsmálaráðuneytis.

Frumvörp þessi eru flutt í kjölfar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar frá síðastliðnu hausti um að Þjóðskrá flytjist frá Hagstofu Íslands til dómsmálaráðuneytisins. Verði frumvörpin að lögum er gert ráð fyrir að flutningurinn eigi sér stað 1. maí nk.

Undanfarin ár hefur staðið yfir endurskipulagning á starfsemi Hagstofu Íslands með það fyrir augum að ná fram hagræðingu og styrkja hagsýslugerð stofnunarinnar. Fólst í þeirri stefnumörkun að verkefni sem ekki tengdust beinlínis hagsýslugerð flyttust annað. Ríkisskattstjóri tók þannig yfir fyrirtækjaskrá Hagstofunnar um mitt ár 2003.

Tengsl þjóðskrár og verkefni á sviði dómsmálaráðuneytisins hafa vaxið til mikilla muna á síðustu árum. Þjóðskráin er þannig undirstaða ýmissa verkefna sem dómsmálaráðuneytið og stofnanir þess hafa með höndum svo sem um skráningu útlendinga, veitingu dvalarleyfa, útgáfu vegabréfa og ökuskírteina. Þá er þjóðskrá og gagnasafn hennar ein helsta heimild um margháttuð málefni einstaklinga á sviði sifjaréttar, svo sem um faðerni barna, ættleiðingar, forsjá barna, stofnun og slit hjúskapar og staðfestrar samvistar og skráningu sambúðar og slit hennar, svo og um ríkisfang, mannanöfn o.fl. Er það ætlun dómsmálaráðuneytisins að hagnýta þessi tengsl með því að fela Þjóðskrá aukin verkefni, t.d. hvað varðar útgáfu vegabréfa og annarra skilríkja og umsjá með verkefnum ráðuneytisins á sviði löggjafar um mannanöfn.

Helstu atriði í frumvörpunum tveimur eru þessi:

Þjóðskrá verður rekin sem skrifstofa í dómsmálaráðuneytinu en fjárreiður hennar verða aðskildar frá fjárreiðum ráðuneytisins. Dómsmálaráðherra verður heimilað að ákveða að um flutning manna á lögheimili milli Norðurlanda gildi Norðurlandasamningur um almannaskráningu en þessi lagabreyting gerir íslenskum stjórnvöldum kleift að fullgilda samninginn. Samningurinn er frá 1. nóvember 2004 en þar urðu Norðurlöndin ásátt um að í stað þess að skráning á flutningi fólks milli Norðurlandanna byggist á samnorrænum flutningsvottorðum yrðu teknar upp rafrænar flutningstilkynningar milli þjóðskráa ríkjanna.

Ýmis ákvæði laga um þjóðskrá og almannaskráningu verða færð til nútímahorfs svo sem varðandi hlutverk presta við almannaskráningu. Má þá nefna 2., 8. og 14. gr., frumvarps um breytingu á lögum um þjóðskrá og almannaskráningu, nr. 54/1962, þar sem felld verður brott tilvísun til þess að sóknarprestar starfi við almannaskráningu og fari yfir íbúaskrár en hlutverki þeirra við skráningu lauk fyrir mörgum árum. Áfram munu prestar þó gegna hlutverki við skýrslugjöf til Þjóðskrár um nafngjöf nýfæddra barna, hjónavígslur og mannslát.

Stefnt er að gildistöku lagabreytinganna 1. maí nk. en um það leyti er áformað að hefja útgáfu nýrra vegabréfa og mun Þjóðskrá annast það verkefni. Hefur dómsmálaráðherra lagt fram sérstakt frumvarp um það efni, sem er mál 615, þskj. 900, þar sem gert er ráð fyrir útgáfu íslenskra vegabréfa með rafrænum lífkennum.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þessi frumvörp að svo stöddu en þau skýra sig að mestu leyti sjálf. Ég legg til að þeim verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og allsherjarnefndar.