132. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2006.

Þjóðlendur.

630. mál
[14:36]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Ég á ekki von á því að um þetta mál verði jafnmikil umræða og um vatnalögin þó að hér sé kannski að mörgu leyti um miklu stærra lögfræðilegt mál að ræða, en ég vil þó róa hv. þingmenn með því að hér er um litla breytingu að ræða sem varðar form þessa máls. En ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, nr. 58/1998, með síðari breytingum.

Efni þessa frumvarps er tvíþætt. Annars vegar er í 1. gr. frumvarpsins mælt fyrir um breytingu á 5. mgr. 6. gr. laganna. Samkvæmt núgildandi lögum skal formaður óbyggðanefndar vera í fullu starfi sem framkvæmdastjóri hennar og hafa sömu lögkjör og dómstjórinn í Reykjavík. Núverandi formaður lætur af störfum sem framkvæmdastjóri á þessu ári og þykir eðlilegra að framvegis gildi að nefndin ráði sér framkvæmdastjóra og semji við hann um kjör. Engin nauðsyn stendur til þess að sami maður sé formaður nefndarinnar og framkvæmdastjóri hennar. Er þessi breyting lögð til að frumkvæði óbyggðanefndar en hún nýtur ríks sjálfstæðis um störf sín og um hana er full sátt við alla nefndarmenn.

Hins vegar er í 2. gr. frumvarpsins lögð til breyting á 8. gr. laganna að því er snertir starfslok óbyggðanefndar. Samkvæmt gildandi lögum á verkefnum óbyggðanefndar að ljúka fyrir árið 2007. Nú er ljóst að verkefnið er miklum mun umfangsmeira og tímafrekara en í upphafi leit út fyrir. Því veldur umfang verksins, öflun og rannsókn gagna og tímafrek málsmeðferð. Það er því lögð til sú breyting að miða lok verksins við árið 2011.

Frumvarpinu fylgir sem fylgiskjal áætlun óbyggðanefndar um starfið næstu árin. Óbyggðanefnd hefur nú kveðið upp úrskurð í 21 máli á svæði sem spannar stærsta hluta Suðurlands og Suðausturlands. Meðferð mála á Suðvesturlandi og Norðausturlandi stendur nú yfir. Ætlunin er að ljúka við miðhálendið og aðliggjandi svæði fyrir árslok 2009 og samkvæmt áætlun óbyggðanefndar mun hún ljúka störfum með því að taka fyrir Vestfirði árið 2010 og Austfirði árið 2011. Þetta verk er afskaplega mikilvægt og skiptir miklu fyrir þjóðfélagið og því tel ég nauðsynlegt að það sé greitt fyrir því hér á hv. Alþingi að hægt sé að taka í þetta mál þann tíma sem hæfir mikilvægi þess.

Að svo mæltu legg ég til, virðulegi forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. allsherjarnefndar.