132. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2006.

Þjóðlendur.

630. mál
[14:41]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Því miður hef ég ekki upplýsingar um það en ég skal sjá til þess að hv. nefnd verði gerð grein fyrir því og mun koma því á framfæri við óbyggðanefnd að það verði gert. Ég á von á því að þessi kostnaður hafi reynst meiri en upphaflega var áætlað enda er hv. þingmönnum vel kunnugt um að hér hefur verið um gífurlega umfangsmikið starf að ræða sem hefur orðið bæði tímafrekara og meira umleikis en menn gátu áætlað í upphafi. Ég tel hins vegar að það sé svo mikilvægt að ljúka því með góðum hætti að það megi ekki spara til til þess að það farist vel úr hendi. Þetta er mál sem skiptir sköpum um alla framtíð því hér er um að ræða grundvöll þeirra marka sem liggja milli eignarlands annars vegar og hins vegar þess sameiginlega landsvæðis, þ.e. þjóðlendunnar, sem tryggja almannarétt landsmanna og þar á meðal, eins og hér hefur komið fram, helsta vatnsforðabú landsins og það skiptir náttúrlega miklu máli út frá almannarétti að það geti þjónað þjóðfélaginu um alla framtíð.