132. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2006.

Virðisaukaskattur.

624. mál
[15:22]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

Eins og rakið er í greinargerð með frumvarpi þessu er með því kveðið á um nokkrar breytingar á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum. Í fyrsta lagi er lagt til að lágmark virðisaukaskattsskyldrar sölu á ársgrundvelli verði hækkað úr 220.000 kr. í 500.000 kr. Samkvæmt 3. tölul. 4. gr. laganna eru þeir sem selja skattskylda vöru eða þjónustu fyrir minna en 220.000 kr. á ári undanþegnir skattskyldu. Það er frumforsenda fyrir skráningu á virðisaukaskattsskrá að starfsemi sé í atvinnuskyni, sbr. 5. mgr. 5. gr. laganna.

Einn meginþátturinn sem horft er til við mat á því hvort um atvinnustarfsemi er að ræða er umfang starfsemi. Umfangslítil starfsemi bendir til þess að ekki sé um atvinnustarfsemi að ræða. Segja má að veltumarkið feli í sér vísbendingu um það hvað umfangið þurfi að vera mikið til að um atvinnustarfsemi sé að ræða.

Núgildandi lágmarksveltuákvæði hefur staðið óbreytt í lögunum frá 1. júlí 1997, þegar fjárhæðin var lögbundin og afnumin vísitölubundin hækkun sem gilti fyrir þann tíma. Þá má geta þess að íslenska veltumarkið er töluvert lægra en hjá nágrannaþjóðum okkar að Svíþjóð undanskilinni en þar eru engin slík lágmarksskilyrði.

Með hliðsjón af hagkvæmnisástæðum, atvinnuskynsreglu 5. mgr. 5. gr. laganna og fyrirkomulagi í nágrannalöndum er því með frumvarpi þessu lagt til að lágmarksveltuákvæði laganna verði hækkað úr 220.000 kr. í 500.000 kr.

Í öðru lagi er lagt til með frumvarpi þessu að leiðréttingartímabil innskatts varðandi fasteignir verði lengt úr tíu árum í tuttugu ár. Reynslan af þessu ákvæði hefur sýnt að tíu ára leiðréttingarskylda innskatts varðandi fasteignir er of stutt tímabil. Auk þess hefur verið gerð breyting á reglugerð nr. 515/1996, um skráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, þar sem lengdur var sá tími sem aðilar sem stunda starfsemi á þróunar- eða undirbúningsstigi geta verið með svokallaða fyrirframskráningu á virðisaukaskattsskrá úr 6 árum í 12 ár. Gangi áform þróunar- eða undirbúningsstarfs ekki eftir, þannig að ekki komi til eiginlegrar virðisaukaskattsskyldrar starfsemi, ber hinum fyrir fram skráða m.a. að leiðrétta fenginn innskatt vegna framkvæmda við fasteignir. Skylda til leiðréttingar varir í 10 ár frá því að framkvæmdir áttu sér stað og skal leiðrétting vera hlutfallsleg miðað við leiðréttingartímann. Með tvöföldun tímalengdar fyrirframskráningar getur komið til þess, verði ekkert að gert, að leiðréttingartími verði liðinn þegar á leiðréttingarskyldu reynir. Er það andstætt þeim sjónarmiðum sem búa að baki reglum um fyrirframskráningu og leiðréttingu innskatts. Er því nauðsynlegt samhliða þessari breytingu að lengja tímabil leiðréttingarskyldu á innskatti varðandi fasteignir, þar sem eðlilegt þykir að það tímabil sé talsvert lengra en tímabil mögulegrar fyrirframskráningar.

Í þriðja lagi er lagt til að gerðar verði smávægilegar breytingar á nokkrum ákvæðum laganna er varða byggingarstarfsemi. Unnið hefur verið að einföldun reglna um virðisaukaskatt af byggingarstarfsemi um nokkurt skeið. Til þess að ná fram þeirri einföldun og samræmingu sem að er stefnt er nauðsynlegt að gera nokkrar smávægilegar breytingar á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.