132. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2006.

Almenn hegningarlög o.fl.

619. mál
[15:27]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breyting á almennum hegningarlögum, lögum um meðferð opinberra mála og lögum um fjarskipti, en þar eru lagðar til nauðsynlegar lagabreytingar til að fullgilda megi samning Evrópuráðsins um tölvubrot frá 23. nóv. 2001. Í samningnum eru samræmd almenn efnisskilyrði í refsilöggjöf og tengdri löggjöf að landsrétti á sviði tölvubrota. Jafnframt er mælt fyrir um nauðsynlegar réttarfarsreglur svo að hægt sé að rannsaka og saksækja einstaklinga fyrir slík afbrot auk annarra afbrota sem framin eru í gegnum tölvukerfi eða með rafrænum hætti.

Frumvarpið er samið í refsiréttarnefnd og réttarfarsnefnd að tilhlutan dómsmálaráðherra. Þá hafði dómsmálaráðuneytið samráð við samgönguráðuneytið vegna ákvæða í fjarskiptalögum.

Helstu efnisatriði frumvarpsins eru þessi:

Lagt er til í 1. gr. frumvarpsins að lögfest verði nýtt ákvæði í II. kafla A almennra hegningarlaga sem veiti heimild til að leggja refsiábyrgð á lögaðila fyrir brot á ákvæðum almennra hegningarlaga. Það er vegna ákvæða 12. gr. samningsins sem skyldar aðildarríki að gera lögaðila refsiábyrga fyrir brot sem eiga að vera refsinæm samkvæmt samningnum.

Þá er lögð til breyting í 2. gr. frumvarpsins á ákvæði í 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga um barnaklám sem taka á af allan vafa um að það sé refsinæmt hér á landi að afla sér eða öðrum barnakláms í gegnum tölvukerfi, samanber skuldbindingar samkvæmt d-lið 1. mgr. 9. gr. samningsins.

Í 5. gr. frumvarpsins er lagt til að bætt verði nýju ákvæði við lög um meðferð opinberra mála sem mæli fyrir um heimild fyrir lögreglu í þágu rannsóknar opinbers máls að leggja fyrir þann sem rekur fjarskiptaþjónustu eða fjarskiptanet að varðveita þegar í stað tölvugögn, þar með talin gögn um tölvusamskipti. Þetta nær aðeins til fyrirmæla um að varðveita gögnin og er miðað við að lögreglan geti gefið slík fyrirmæli án undangengins dómsúrskurðar. Tekið skal fram að gögn verða ekki afhent á grundvelli þessarar heimildar en til þess þarf úrskurð dómara eftir almennum reglum. Einnig er í 5. gr. frumvarpsins gert ráð fyrir að fyrirmæli lögreglu um varðveislu gagna geti eingöngu náð til gagna sem þegar eru fyrir hendi. Þannig verði ekki unnt að gefa fyrirmæli um varðveislu gagna sem ekki eru fyrir hendi, svo sem seinni tíma tölvupóst.

Til að tryggja að fyrirmælum lögreglu verði fylgt eru lagðar til viðeigandi breytingar á lögum um fjarskipti. Beinlínis verði kveðið á um skyldu þess sem rekur fjarskiptaþjónustu eða fjarskiptanet að verða við tilmælum lögreglu um aðstoð við rannsókn sakamáls enda styðjist þau tilmæli við dómsúrskurð eða lagaheimild. Rétt þykir að binda þetta ekki við skyldu til varðveislu gagna heldur verði þetta almenn skylda sem taki til annarra rannsóknarúrræða.

Loks er lagt að refsingar vegna brota á fjarskiptalögum geti varðað fangelsi allt að tveimur árum í stað sex mánaða nú í ljósi þeirra hagsmuna sem í húfi eru þegar ákvæði fjarskiptalaga eru brotin.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.