132. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2006.

Almenn hegningarlög o.fl.

619. mál
[15:40]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Mig langar að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra þriggja spurninga sem lúta að 5. og 6. gr. frumvarpsins.

Um 5. gr. stendur í greinargerð, með leyfi forseta:

„Í samræmi við þetta er lagt til í 5. gr. frumvarpsins að bætt verði nýju ákvæði við lög um meðferð opinberra mála, sem verði 87. gr. a, með heimild fyrir lögreglu, í þágu rannsóknar opinbers máls, að leggja fyrir þann sem rekur fjarskiptaþjónustu eða fjarskiptanet að varðveita þegar í stað tölvugögn, þar með talin gögn um tölvusamskipti, sbr. 1. mgr. ákvæðisins. Þetta nær aðeins til fyrirmæla um að varðveita gögnin og er miðað við að lögregla geti gefið slík fyrirmæli án undanfarandi dómsúrskurðar.“

Mig langar að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra: Af hverju er ekki gerð krafa um dómsúrskurð þegar kemur að þessari kröfu lögreglunnar, þ.e. að biðja um varðveislu gagnanna? Ég veit að skilyrði fyrir afhendingu gagna er dómsúrskurður en mig langar aðeins að fá skoðanir hæstv. dómsmálaráðherra á því af hverju ekki er áskilinn dómsúrskurður þegar kemur að því krefjast varðveislu gagnanna.

Síðan er spurning númer tvö sem lýtur að 6. gr. Þar er talað um að það verði beinlínis skylda þess sem rekur fjarskiptaþjónustu eða fjarskiptanet að verða við tilmælum lögreglu um aðstoð við rannsókn sakamáls, enda styðjist þau tilmæli við dómsúrskurð eða lagaheimild. Mig langar að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra um hvort núverandi skylda sé ekki nú þegar í lögum, þ.e. hafi opinber aðili dómsúrskurð um að aðstoða eigi við rannsókn sakamáls, hvort sú skylda sé ekki nú þegar fyrir hendi. Ef svo er, af hverju er verið að bæta þessu við til viðbótar?

Að lokum langar mig að spyrja einnar spurningar sem varðar einnig 6. gr., en hún lýtur að þessari svokallaðri aðstoð. Í greininni stendur:

„Þeim sem rekur fjarskiptaþjónustu eða fjarskiptanet er skylt að verða við tilmælum lögreglu um aðstoð við rannsókn sakamáls … “

Hvað felst í þessari aðstoð? Getur hæstv. dómsmálaráðherra upplýst okkur um hversu langt það gengur? Greinargerðin segir að þetta taki ekki einungis til varðveislu gagna heldur verði þetta almennt og taki einnig til rannsóknarúrræða. Ef hæstv. dómsmálaráðherra gæti aðeins dýpkað skilning sinn á 6. gr. fyrir okkur í allsherjarnefnd væri það til bóta.