132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Fæðingarorlofssjóður.

424. mál
[12:01]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir fyrirspurn til hæstv. félagsmálaráðherra um Fæðingarorlofssjóð. Þegar þessi fyrirspurn var lögð fram var annar hæstv. félagsmálaráðherra í sæti þess sem nú situr en ég býð hæstv. nýjan félagsmálaráðherra velkominn til starfa. Ég spyr um Fæðingarorlofssjóð og spurningin er þríþætt:

1. Hvaða rök eru fyrir því að segja upp þjónustusamningi við Tryggingastofnun ríkisins um rekstur Fæðingarorlofssjóðs og flytja starfsemina undir Vinnumálastofnun og síðan norður í Húnavatnssýslur? Þar hafa verið nefndir bæirnir Hvammstangi og Skagaströnd.

2. Hvernig á að sinna þjónustunni þaðan?

3. Hve mikið er áætlað að þessar breytingar muni kosta ríkissjóð?

Um áramótin bárust fréttir af því að þáverandi hæstv. félagsmálaráðherra hefði sagt upp samningi við Tryggingastofnun ríkisins um rekstur Fæðingarorlofssjóðs og að hann hygðist flytja starfsemina undir Vinnumálastofnun og síðar út á land. Þessi tíðindi komu fleirum en mér á óvart. Fæðingarorlofsgreiðslur hafa verið afgreiddar hjá Tryggingastofnun frá því að þær komu til og í lögum um sjóðinn er kveðið á um að Tryggingastofnun sinni þjónustunni en árið 2004 var bætt inn ákvæði um heimild til að ákveða annað.

Í Tryggingastofnun hefur byggst upp bæði heilmikil þekking og reynsla í þeim flókna málaflokki sem þessar greiðslur geta verið og eru og nú starfa við fæðingarorlofsgreiðslurnar níu starfsmenn með mikla reynslu, þar af fimm háskólamenntaðir. Einnig hafa skapast afleidd störf innan Tryggingastofnunar í þjónustumiðstöðinni vegna þessa. Samspil fæðingarorlofsgreiðslna og annarra bótagreiðslna getur verið mjög flókið í afgreiðslu og útreikningi og þarf að vinnast saman, oft og tíðum með öðrum bótum. Því furða ég mig á þeirri ráðstöfun að flytja þessa þjónustu út úr Tryggingastofnun og út á land.

Ég hef mikinn skilning á því að það þurfi að flytja störf út á land en það ættu þá að vera ný störf og ný þjónusta en það ætti ekki að taka sérhæfingu og sérþekkingu sem byggst hefur upp hjá gróinni stofnun út úr málaflokknum og bita þjónustuna í sundur eins og lagt er til hér. Það er líka ljóst að starfsmenn Tryggingastofnunar ætla ekki að flytja norður, að því er ég best veit. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Er sérmenntað fólk þarna til að sinna þessum störfum og hvernig á að sinna þjónustunni þaðan? Það þarf auðvitað að vera afgreiðsla á höfuðborgarsvæðinu til að afgreiða þessi mál. Síðan spyr ég hvað þessi ráðstöfun muni kosta skattgreiðendur.

Að lokum, virðulegi forseti, langar mig til að bæta við og spyrja hæstv. ráðherra sem nú er tekinn við hvort hann hafi sömu áform og fyrirrennari hans um að breyta þessu og færa þjónustuna út úr Tryggingastofnun.