132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Fæðingarorlofssjóður.

424. mál
[12:10]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir að hafa komið með þessa fyrirspurn en ekki síður hæstv. ráðherra fyrir svörin vegna þess að ég tel að hæstv. ráðherra sé á réttri leið í þessu máli. Ég vil vekja athygli á því að þau byggðarlög sem hafa verið nefnd í því samhengi að fá til sín þessi störf hafa ekki af miklu að má hvað varðar opinbera starfsemi. Og það er full ástæða til þess að reyna að flytja sem mest af henni út á landsbyggðina. Ég held að í raun og veru séu mjög góð rök fyrir því að þessi þjónusta geti vel verið úti á landsbyggðinni. Reykvíkingar þurfa að horfast í augu við að hér í Reykjavík er ýmiss konar starfsemi sem er þjónusta við landsbyggðina. Við verðum auðvitað að horfa til þess að slík þjónusta geti líka verið úti á landi þó að hún sé á landsvísu. Þetta er allt saman hægt og menn verða bara að vinna að því með bjartsýni og þori eins og hæstv. ráðherra er greinilega að gera.