132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Fæðingarorlofssjóður.

424. mál
[12:14]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það hefur nýlega verið upplýst í hv. Alþingi að megnið af opinberum störfum hefur orðið til á höfuðborgarsvæðinu á undanförnum árum og opinberum störfum á landsbyggðinni hefur fækkað. Ég held að sú viðleitni sem hér er sýnd með því að taka þá þjónustu sem varðar Fæðingarorlofssjóðinn og reyna að koma henni fyrir á landsbyggðinni sé góð viðleitni og ég sé ekki að það eigi að vera erfiðara að sinna þessum störfum frá landsbyggðinni en frá höfuðborgarsvæðinu, í nútímaþjóðfélagi.

Ég held að það sé einnig rétt þegar verið er að huga að því að færa verkefni út á land, að þá séu færð einhver afmörkuð verkefni eins og hér er verið að leggja til og teknir ákveðnir verkþættir sem beinlínis eru vistaðir á landsbyggðinni og þeim stjórnað þaðan. Ég held að það sé þróun sem við eigum að stuðla að og ekki veitir af til að sporna við fólksflótta af landsbyggðinni.