132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Fæðingarorlofssjóður.

424. mál
[12:21]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil taka það fram að ég hef unnið að þessu máli í þeim anda sem fyrirrennari minn gerði og ég hef í sjálfu sér ekkert bakkað. Þau áform sem ég lýsti í svari mínu hafa ætíð verið uppi. Ég átti eftir að fara aðeins nánar í kostnaðinn við þetta en hann mun ráðast af því starfsfólki sem fæst ráðið og sérfræðingar í tölvu- og upplýsingamálum hjá Vinnumálastofnun og Tryggingastofnun ríkisins eiga að fara yfir þessa hlið mála. Vinnumálastofnun hefur þegar hafið greiningu á þessum atriðum og mun leggja fram á næstunni nánari kostnaðargreiningu en þess má geta að umsýslukostnaður Tryggingastofnunar vegna málsins er 51 millj. kr. á fjárlögum sem liggja fyrir fyrir árið 2006.

Ég hef í rauninni ekki miklu við þetta að bæta. Undirbúningurinn stendur yfir og ég vil þakka þær undirtektir sem málið hefur fengið hér. Ég tel mikilvægt að vel takist til og við munum kappkosta það í félagsmálaráðuneytinu að vanda undirbúninginn sem allra best og sú vinna hefur staðið yfir.