132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Þýðingar kjarasamninga á erlend tungumál.

617. mál
[12:34]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Valdimar L. Friðriksson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. félagsmálaráðherra Jóni Kristjánssyni fyrir ágæt svör svo og þeim sem tóku þátt hér í umræðunni. Eins og við heyrum eru um 500–600 kjarasamningar gerðir á hverju ári og ég ætla ekki að menn þýði þá alla en það er nokkuð öruggt að útlendingar eru fleiri í ákveðnum störfum en öðrum. Atvinnuleyfi er gefið út af Vinnumálastofnun og þess vegna teldi ég það svona liggja í hlutarins eðli að þeir hefðu ákveðið frumkvæði og þar af leiðandi félagsmálaráðuneytið í því að tryggja þeim sem fá hér atvinnuleyfi góðan og skýran aðgang að kjarasamningum. Stór hluti af þessu öllu er að tryggja kaup og kjör starfsfólks og þar af leiðandi ánægju þeirra í starfi sem er ekki síst nauðsynleg þeim mörgu erlendu starfsmönnum sem sinna umönnunarstörfum. Að öðru leyti þakka ég ágæt svör.