132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Þýðingar kjarasamninga á erlend tungumál.

617. mál
[12:36]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þær umræður sem hér hafa farið fram um þetta mikilvæga mál og þakka fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessum málefnum innflytjenda. Þessi málaflokkur er mjög vaxandi í félagsmálaráðuneytinu. Ég tel mikilvægt að það sé hægt að sinna honum eins vel og föng eru á. Ég horfi vongóður til starfs innflytjendaráðs í því efni. Við þurfum að kortleggja hvar skórinn kreppir í þessum málum, hvers við eigum að vænta á næstunni. Þessi málaflokkur hefur, eins og ég segi, vaxið alveg gríðarlega og þetta er einn þátturinn.

Hins vegar vil ég undirstrika annan stóran þátt sem einnig hefur verið komið inn á hér í umræðunni en það er að sinna íslenskukennslu fyrir erlent fólk þannig að það geti komist í nánari tengsl við samfélagið með tungumálinu. Eigi að síður er þörf á að huga að þeim þætti sem hv. fyrirspyrjandi nefndi. Á þeim dögum sem ég hef verið í félagsmálaráðuneytinu hef ég orðið þess áskynja hvað innflytjendamálin eru gríðarlega stór og vaxandi þáttur og að þeim þarf að huga alveg sérstaklega.