132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Kadmínmengun.

572. mál
[12:41]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Í svari mínu í fyrirspurnatíma hér á Alþingi þann 9. nóv. sl. um kadmínmengun í Arnarfirði kom fram að árið 2004 var Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins veittur styrkur úr svonefndum AVS-rannsóknasjóði, þ.e. um aukin verðmæti sjávarfangs á vegum sjávarútvegsráðuneytisins, til að rannsaka nánar umfang og mögulegar ástæður kadmínmengunar í sjávarfangi í Arnarfirði. Styrkurinn var að upphæð 2,5 millj. kr. Auk þess kom viðbótarframlag frá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins til þessa verkefnis.

Það voru tekin sýni til mælinga árið 2004 úr hörpudiski, kræklingi, seti og rækju úr Arnarfirði og síðar var veittur viðbótarstyrkur úr AVS-rannsóknasjóði sjávarútvegsráðuneytisins til þessara rannsókna, bæði til frekari sýnatöku og til að vinna úr þeim sýnum sem þarna höfðu verið tekin.

Þess skal líka getið að á árinu 2003 veitti umhverfisráðuneytið 300 þús. kr. í framangreint verkefni til efnamælinga á seti. Það var gert ráð fyrir að fyrstu niðurstöður mælinga og rannsóknaniðurstöður gætu legið fyrir í byrjun þessa árs og stefnt var að því að greiningum yrði lokið í júní á þessu ári. Hins vegar liggur nú fyrir að verkefnið tefst um nokkra mánuði og ástæðurnar fyrir því eru ófyrirsjáanlegar mannabreytingar hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins en verkefnisstjóri þessa verkefnis hætti störfum hjá stofnuninni í vetur. Málið stendur nú einfaldlega þannig að það er reiknað með að fyrstu niðurstöður liggi fyrir í júní og að verkefninu verði lokið seint á þessu ári.

Hvað snertir síðan fjárveitingar til frekari rannsókna á kadmínmengun í lífríki Íslands vil ég segja að umhverfisráðuneytið heldur áfram að stuðla að nauðsynlegri almennri vöktun á mengun í lífríkinu og í nýrri skýrslu á vegum OSPAR-samningsins er m.a. fjallað um niðurstöður vöktunarrannsókna á kræklingi hér við land. Í þeirri skýrslu er getið þróunar í styrk kadmíns í kræklingi hér við Íslands en hár styrkur kadmíns mælist í kræklingi á nokkrum stöðum hér við land en það er talið tengjast frekar jarðfræði landsins og þá mögulega líka eldvirkni en síður mengun vegna starfsemi eða framkvæmda.

Það er álit Umhverfisstofnunar sem sér um umsýslu vöktunarverkefna vegna efnamengunar fyrir umhverfisráðuneytið að fremur sé þörf markvissra grunnrannsókna en vöktunarrannsókna til þess að skýra sérstöðu íslenska hafsvæðisins hvað varðar styrk kadmíns. Það er að sjálfsögðu æskilegt að slíkar rannsóknir fari fram enda er nauðsynlegt að fá úr því skorið hvað veldur þessum háa styrk kadmíns og staðfesta þá betur að hve miklu leyti það á sér náttúrulegar orsakir. Þegar rannsóknum í Arnarfirði lýkur tel ég að það sé rétt að huga enn frekar að þessum þætti, að mögulegum grunnrannsóknum á kadmín í lífríkinu í hafinu við Ísland, og ég mun taka málið sérstaklega upp við Umhverfisstofnun og aðrar rannsóknastofnanir þegar þar að kemur og niðurstöður þessara rannsókna liggja fyrir.

Ég tek undir með hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni að þarna er um mál að ræða sem við þurfum að fá niðurstöðu í og eins og hann nefndi réttilega þá eru það hagsmunir íbúanna við sjávarsíðuna að vel sé staðið að rannsóknarþætti í málum eins og þessum og það er stórt hagsmunamál allra Íslendinga sem fiskveiðiþjóðar að svo sé.