132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Kadmínmengun.

572. mál
[12:47]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir svörin og vonast til þess, miðað við orð hennar, að hún reyni að beita sér fyrir því að flýta niðurstöðum eins og mögulegt er í þessu máli.

Það er algjörlega rétt sem kom fram í máli hv. síðasta ræðumanns, Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, að það er auðvitað sárt til þess að vita að það skuli ekki vera hægt að nýta Arnarfjörðinn til veiða og ræktunar því þar voru menn byrjaðir að rækta krækling og stefndu þar til nýsköpunar og vonandi framtíðar í þeim efnum.

Meðan sú niðurstaða liggur óhreyfð að fjörðurinn sé ekki sú matarkista sem hann ella gæti verið íbúunum stendur það upp á stjórnvöld að reyna að efla rannsóknirnar og fá niðurstöðu í málið. Auðvitað vonumst við til, eins og íbúarnir við fjörðinn, að til framtíðar reynist það ekki svo að í þessum firði megi ekki stunda veiðar og kræklingarækt. En þess heldur þarf að flýta þessum niðurstöðum. Ég vil leggja þann skilning í orð og svar hæstv. ráðherra að reynt verði með öllum ráðum að fá sem fyrst niðurstöðu í þetta mál.

Veiðitími rækju og hörpuskeljar hefur yfirleitt verið seinni hluta ársins þannig að ég vil sérstaklega beina þeim tilmælum til hæstv. ráðherra að ef einhver tök eru á því að flýta niðurstöðum í þessu máli verði það gert. Það skiptir verulegu máli fyrir íbúana við fjörðinn hvort hægt er að horfa til þess að þessar nytjar verði aftur sá atvinnuvegur sem áður var, og geti þá jafnvel hafist á haustdögum.