132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Merking matvæla.

633. mál
[12:51]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ísólfur Gylfi Pálmason) (F):

Virðulegi forseti. Með fyrirspurn þessari, sem ég beini til hæstv. umhverfisráðherra, vil ég vekja athygli á merkingu á íslenskri og innfluttri matvöru. Talsverðar framfarir hafa orðið á merkingu íslenskrar matvöru á undanförnum árum og er það vel.

Þannig er til mikillar fyrirmyndar á hvern hátt íslenskir ylræktar- og garðyrkjubændur hafa merkt framleiðsluvörur sínar svo ekki fer á milli mála hvaðan framleiðslan er. Þannig vita neytendur nákvæmlega hvar og hvaðan framleiðsluvaran er og geta borið saman bragð og gæði. Þetta hefur líka heilmikla markaðsmöguleika í för með sér.

Íslenskar mjólkurafurðir eru einnig vel merktar og oftast í mjög fallegum umbúðum. Merking þeirra er þó með öðrum hætti en með grænmetið. Merking íslenskra mjólkurafurða er til mikillar fyrirmyndar og reyndar markaðssetning hennar einnig.

Framfarir hafa einnig orðið í merkingu á kjötvöru. Þó vantar enn talsvert á að neytendur viti um uppruna og tegund matvörunnar. Þannig vita neytendur ekki hvort þeir eru að kaupa gimbra- eða hrútakjöt þegar um lambakjöt er að ræða. Á sama hátt vita þeir ekki hvort þeir eru að kaupa nautakjöt, kvígukjöt eða kýrkjöt þegar þeir eru að kaupa nautakjöt. Það vantar einnig á að uppruna vörunnar sé getið. Þetta getur skipt heilmiklu máli í nútímaþjóðfélagi og einnig hvað markaðssetningu áhrærir.

Í æ ríkara mæli reyna innflytjendur grænmetis að merkja grænmetið með þeim hætti að látið sé líta út fyrir að þar sé um íslenska vöru að ræða. Ég tek skýrt fram að ég hef ekkert á móti innflutningi á grænmeti. Íslenskt grænmeti stenst fyllilega samanburð við það erlenda og að mínu mati tel ég það reyndar mun betra en hina innfluttu vöru.

En ég hygg að innflytjendur reyni að blekkja neytendur með því að merkja vöruna eins og hún sé íslensk, m.a. vegna þess að hin innlenda vara er enn heilnæmari og enn betri en innflutta varan, eða það er a.m.k. mín skoðun. Þetta sjáum við í grænmetisborðum stórmarkaðanna þegar við skoðum merkingu á vörum þar. Þetta á við um sveppi, þetta á við um jarðarber og þetta á við um margt fleira grænmeti.

Þegar ég vaknaði í morgun heyrði ég auglýsingu og í henni var sagt: Eins og íslensk náttúra er salatið frá Hollt og gott hreint og gott. Mér er sagt að sá ferskleiki felist m.a. í því að salatið er þvegið upp úr íslensku vatni en er framleitt á erlendri grundu. Þetta er reyndar ágætisvara, en það er ákveðin blekking fólgin í þessu.

Ég legg hér fram þrjár fyrirspurnir sem ég veit að hæstv. ráðherra mun svara að bragði.