132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Merking matvæla.

633. mál
[12:58]
Hlusta

Jóhanna Erla Pálmadóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég vil beina máli mínu til hæstv. umhverfisráðherra. Ég vil leggja mikla áherslu á mikilvægi þess að innflytjendur matvæla merki vöru sína vel og skilmerkilega þannig að allir skilji.

Okkur bændum er gert að skrá vandlega allt framleiðsluferli okkar framleiðslu. Þær upplýsingar liggja fyrir en þær komast einhverra hluta vegna ekki út til neytenda. Við það erum við ekki sátt af því að oft er bent á bændur, að þeir standi sig ekki í þeim málum. En bændur gera það og þeim ber að fylgja ferlinu öllu eftir og skrá þetta skilmerkilega því það skiptir máli fyrir neytendur — ég ætla að minna á að bændur eru líka neytendur — hvaðan varan kemur og hvernig hún er framleidd.