132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Merking matvæla.

633. mál
[13:05]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Það kemur mjög glögglega fram við þessa umræðu að hér er um mjög mikilvæg mál að ræða fyrir okkur öll. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni að höfuðmarkmið í allri matvælaframleiðslu er auðvitað að varan sé örugg. Öryggi matvæla er það sem skiptir allra mestu máli fyrir okkur öll, öryggi og hollusta. Merkingar eru hluti af því að við getum valið á skynsamlegan hátt það sem við teljum sjálf og vitum að er hollast og best fyrir hvert og eitt okkar.

Ég tek líka undir það með hv. þingmönnum, og hv. þm. Jóhanna Pálmadóttir nefndi það sérstaklega, að menn eigi að fara að reglum í sambandi við merkingar og hún nefndi þá sérstaklega innflytjendur. Ég tek undir það. Þetta eru mál sem skipta okkur miklu og það er mjög vaxandi krafa um það frá neytendum að merkingum sé betur sinnt en verið hefur. Við erum að vinna að innleiðingu reglna Evrópusambandsins sem leiðir til þess að merkingar verða nákvæmari og merkingar verða auknar.

Ég hafði síðan gaman af því að heyra hv. þm. Ísólf Gylfa Pálmason lýsa því hér hvað hann hefur mikinn áhuga á þessum málum. Hann er sælkeri, það kom mjög vel fram í máli hans, og þar að auki starfar hann í í héraði þar sem er mikil matvælaframleiðsla og spennandi hlutir að gerast í garðyrkjunni.