132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Heimahjúkrun á höfuðborgarsvæðinu.

485. mál
[13:16]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Það var athyglisvert við svör hæstv. ráðherra hve þau voru óskýr. Ég tel að fara þurfi gaumgæfilega ofan í þessa hluti vegna þess að það hefur m.a. komið fram í nýrri skýrslu, Hver gerir hvað, að þarna sé hægt að ná fram árangri í sparnaði í heilbrigðiskerfinu. Fólk sem ekki hefur endilega þörf fyrir það liggur inni á dýrum deildum þegar það bíður eftir öldrunarþjónustu á legudeildum annars staðar. Þarna getum við sparað skattfé landsmanna og jafnvel veitt öldruðum, sem liggja að óþörfu inni á Landspítala – háskólasjúkrahúsi, viðeigandi þjónustu. Mig minnir að það komi fram í skýrslunni, Hver gerir hvað, að það sé stór hluti, nokkrir tugir sem liggja að jafnaði inni Landspítala – háskólasjúkrahúsi sem ekki hafi þörf fyrir að vera þar. Því vonast ég til að nýr hæstv. heilbrigðisráðherra láti til sín taka einmitt á þessu sviði.