132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Sjúkrahústengd heimaþjónusta fyrir aldraða.

484. mál
[13:31]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Að mínu mati er það alveg hárrétt mat hjá hæstv. heilbrigðisráðherra að leggja málið upp með þeim hætti sem hún gerði. Í raun og veru eru þrjú kerfi í heimahjúkrun í Reykjavík. Það er heimahjúkrun á vegum heilsugæslustöðva sem sér að mestu um þjónustu við aldraða. Það er sjúkrahústengd þjónusta sem er skipulögð á vegum sjúkrahúsa. Hún er tímabundin og sérhæfð og er nokkurs konar brú á milli sjúkrahúsa og heimahjúkrunar. Og loks er þriðja kerfið sem er þjónusta sjálfstætt starfandi hjúkrunarfræðinga.

Ég er þeirrar skoðunar að hægt sé að fækka um eitt kerfi og að sjúkrahústengd heimaþjónusta eigi að vera í höndum sjálfstætt starfandi hjúkrunarfræðinga á samningi Tryggingastofnunar. Með því móti gerum við verkaskiptinguna innan heilbrigðisþjónustunnar mun skýrari en hún er í dag. Að sumu leyti eru sjálfstætt starfandi hjúkrunarfræðingar sem starfa eftir samningi Tryggingastofnunar að vinna störf sem hjúkrunarfræðingar í sjúkrahústengdri þjónustu vinna. Það þurfa að vera miklu skýrari línur þarna á milli en nú eru.