132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Áfengisráðgjafar.

535. mál
[13:41]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Hér er spurt um fjölda starfandi áfengisráðgjafa á Íslandi, hvaða faglegar kröfur ráðuneytið geri til þeirra og hvort ég hyggist vinna að útgáfu starfsréttindavottorða fyrir áfengisráðgjafa.

Því er til að svara að starfsheitið áfengisráðgjafi er ekki löggilt sem þýðir að engar formlegar kröfur eru gerðar til þeirra af hálfu heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins. Af þessu leiðir að ekki er unnt að segja með vissu hve margir starfa undir þessu heiti við áfengisráðgjöf á eigin vegum eða á stofnunum. Þess skal getið að til er Félag áfengisráðgjafa sem stofnað var árið 1994. Samkvæmt upplýsingum formanns þess eru félagar 43 talsins og starfa hjá fimm mismunandi stofnunum.

Haustið 2003 gerði heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið könnun á fjölda og samsetningu stöðugilda þeirra sem starfa í þjónustu við áfengis- og vímuefnaneytendur. Samkvæmt könnuninni voru 46,1 stöðugildi áfengisráðgjafa hjá SÁÁ og Landspítala – háskólasjúkrahúsi árið 2002. Svör bárust frá fjórum meðferðarheimilum og hjá þeim voru samtals 19,5 stöðugildi áfengisráðgjafa. Þá voru 3,1 stöðugildi áfengisráðgjafa á þeim fimm áfangaheimilum sem svöruðu könnuninni. Samkvæmt þessari könnun voru því stöðugildi áfengisráðgjafa tæplega 70 hjá þeim sem svöruðu könnuninni.

Margir þeirra sem starfa við áfengis- og vímuefnaráðgjöf hafa hlotið menntun og þjálfun hjá SÁÁ, vímuefnasviði Landspítalans eða erlendis. En sem fyrr segir eru engar formlegar kröfur gerðar af hálfu heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins um menntun þeirra. Það er því undir einstökum stofnunum komið hvaða kröfur þær gera til starfsfólks síns sem starfar undir þessu heiti.

Virðulegur forseti. Spurt er hvort ég hyggist vinna að útgáfu starfsréttindavottorða fyrir áfengisráðgjafa. Þannig er að dregið hefur verið úr laga- og reglugerðasetningu í þessu skyni undanfarin ár. Ástæðan er sú að með löggildingu starfsheitis er í raun verið að veita ákveðnum hópi einkarétt á starfssviði og starfsheiti og takmarka rétt annarra til að starfa innan þess sviðs sem hefur verið löggilt. Þetta getur valdið árekstrum á milli stétta sem hafa lík starfssvið eða þar sem starfssvið skarast.

Ákvarðanir um löggildingu nýrra heilbrigðisstétta skulu fyrst og fremst byggjast á að slík gjörð sé nauðsynleg vegna öryggis sjúklings eða sjúklinga. Ég vil hins vegar taka skýrt fram að ég tel störf áfengisráðgjafa vera mjög mikilvæg og ég hvet stjórnendur þeirra stofnana sem veita þessa meðferð að leggja á það áherslu að ráða til starfa hjá sér áfengisráðgjafa sem hafa til að bera þá þekkingu og reynslu sem nauðsynleg er til að ná árangri í þessu vandasama starfi.

Nú er það svo að geysimargar stéttir vilja fá starfsréttindi sín löggilt með bæði þeim kostum og göllum sem því fylgir fyrir þá starfsstétt og aðra. En í ljósi þess hve þessi starfsemi er mikilvæg í samfélaginu hef ég ákveðið að fela landlæknisembættinu að kanna hvort grundvöllur sé og hvort eðlilegt sé að veita þessum hópi starfsréttindi eða tryggja með einhverjum öðrum hætti að menntun og færni ráðgjafanna sé virt í þessum mikilvæga geira heilbrigðisþjónustunnar.

Það eru geysilega mikilvæg störf sem þessir ráðgjafar vinna og því tel ég rétt að landlæknisembættið skoði það sérstaklega hvort grundvöllur sé fyrir því að veita þeim starfsréttindi eða einhvers konar önnur úrræði sem tryggja að störf þeirra séu virt. Svar mitt er að ég hef falið landlæknisembættinu að kanna málið frekar.