132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Áfengisráðgjafar.

535. mál
[13:49]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Eins og fram hefur komið vilja margar stéttir sem vinna mjög mikilvæg störf fá löggild starfsréttindi og það er alltaf erfitt að meta hvenær á að löggilda starfsréttindi og hvenær ekki. Ég skil vel að starfsstéttir sækist eftir löggildingu en að sjálfsögðu verður að skoða kosti þess og galla í hverju tilviki fyrir sig.

Ég bendi á að ábyrgð stofnana er mjög mikil. Hér er talað um að vernda sjúklinginn og tryggja öryggi hans. Gott og vel. Auðvitað þarf að gera það en þá þurfa þessar stofnanir líka að sýna mikla ábyrgð hvað varðar það fólk sem vinnur með þessa aðila vegna þess að þetta er mjög vandasöm, viðkvæm og flókin meðferð. Stofnanirnar þurfa að vanda mjög vel til þeirra aðila sem þær ráða til þess og tryggja að þeir séu þeim vanda vaxnir og hafi getu til að stunda svo flókna, viðkvæma og vandasama meðferð.

Ég heyri að það eru mjög skiptar skoðanir meðal þeirra þingmanna sem hafa tekið til máls um hvort veita beri þessum hópi starfsréttindi eða ekki. Ég tel eðlilegt að landlæknir skoði sérstaklega hvort grundvöllur sé fyrir því að veita honum löggilt starfsréttindi og hvort það sé eðlilegt að málið fari í þann farveg.