132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Eftirlit með staðsetningu sjúkraflugvéla.

544. mál
[14:06]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Það er alveg ljóst að vanefndarákvæðin eru mjög skýr og sterk þannig að ég tel ekkert tilefni til að herða á þeim.

Varðandi skýringar á þeim flugum sem hafa tafist hef ég ekki yfirlit yfir það en man þó eftir að í einhverjum tilvikum var það vegna bilana. Ég hef þó ekki farið yfir það sérstaklega á þessum tíma sem ég hef verið í ráðuneytinu.

Hér hefur verið minnst á þyrluflug og ég vil nefna að í ljósi breyttra aðstæðna má vera að í framtíðinni breytist sjúkraflugið okkar. Af því að við fáum öflugri þyrluflota má vera að hluti af núverandi sjúkraflugi sem er með flugvélum færist yfir á þyrlur þegar flotinn stækkar en það er seinni tíma mál.

Ég vil að lokum þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur orðið um staðsetninguna á Reykjavíkurflugvelli og tengsl hans við nýja sameinaða sjúkrahúsið sem hér mun rísa á næstu árum. Ég vil nota tækifærið og þakka sérstaklega þeim þingmönnum sem hafa dregið það fram, hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni og Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, fyrir að sýna því máli svona góðan skilning. Þá kannski leyfi ég mér hér að hæla sérstaklega hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur sem er þingmaður í höfuðborginni en sýnir þessu máli svona djúpan skilning. Það er alveg ljóst að sjúkraflugið er geysilega mikið landsbyggðarmál og þingmenn höfuðborgarsvæðisins mega ekki gleyma að þó að fólk úti á landsbyggðinni sé færra en við sem hér búum ber okkur að teygja okkur í þá átt að veita því eins góða þjónustu og hægt er. Þar er sjúkraflugið mikið atriði og þess vegna er eðlilegt að hafa góð tengsl á milli flugvallar og sjúkrahúss og hafa þá leið sem stysta sem fara þarf með sjúklinga.