132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Hreyfing sem valkostur í heilbrigðisþjónustu.

560. mál
[14:17]
Hlusta

Ísólfur Gylfi Pálmason (F):

Virðulegi forseti. Hér er um snjalla fyrirspurn að ræða og í raun framhald af þingsályktunartillögu hv. þingmanns. Hreyfing þarf ekki endilega að kosta peninga. Það kostar ekkert að ganga og það kostar ekkert að fara í fjallgöngu. Það kostar lítið að kaupa reiðhjól og nota það í staðinn fyrir að nota bíl. Þetta er spurning um lífsviðhorf og sjálfsstjórn. Það er til þess að gera afar ódýrt að sækja sundstaði á Íslandi, ótrúlega ódýrt miðað við hve heilsusamlegt það er.

Ég spyr mig sömu spurninga og hæstv. heilbrigðisráðherra, hvort eðlilegt sé að læknar framvísi einhverjum grænum kortum. Þetta er miklu frekar spurning um hvatningu til fólks um að hreyfa sig og breyta um lífsstíl en hins vegar er ég mjög ánægður með að hv. þingmaður skuli vekja athygli á þessu, hve miklu máli þetta skiptir.