132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Endurskoðun laga um málefni aldraðra.

580. mál
[14:29]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hér er spurt hvort fyrirhugað sé að endurskoða lög um málefni aldraðra.

Því er til að svara að núgildandi lög um málefni aldraðra voru endurskoðuð í heild á árinu 1999, sem var ár aldraðra hjá Sameinuðu þjóðunum. Leitað var eftir tillögum samstarfsnefndar um málefni aldraðra um breytingar og byggja lögin á þeim tillögum. Lögin tóku gildi 11. janúar árið 2000.

Nokkrar breytingar hafa verið gerðar frá gildistöku laganna. Má t.d. nefna breytingar í framhaldi af samkomulagi við Landssamband eldri borgara í lok ársins 2002. Þær breytingar voru samþykktar á vorþingi 2004. Með þeim breytingum var Framkvæmdasjóði aldraðra heimilt að greiða þann hluta húsaleigu sem telst stofnkostnaður vegna leigu á hjúkrunarheimili sem samþykkt hefur verið að byggja eftir 1. janúar 2005 á kostnað annarra aðila en ríkisins. Einnig var heimiluð greiðsla húsnæðisgjalds en því gjaldi er ætlað að standa undir almennu viðhaldi öldrunarheimila.

Í samstarfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og Landssambands eldri borgara hafa ýmsir þættir er snerta málefni aldraðra verið ræddir og hefur það samstarf farið fram í nefndum á vegum heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Núna er starfandi nefnd á vegum forsætisráðherra sem hefur það hlutverk að fjalla annars vegar um búsetu- og þjónustumál aldraðra, með tilliti til fjölbreyttra búsetuforma, stoðþjónustu og samþættingar heimahjúkrunar og félagslegrar heimilisþjónustu sveitarfélaganna, og hins vegar um fyrirkomulag á tekjutengingabótum almannatrygginga.

Mér þykir rétt að bíða eftir niðurstöðum nefndarinnar áður en tekin verður ákvörðun um heildarendurskoðun á lögum um málefni aldraðra. Að mínu mati er brýnt að veita öldruðum góða þjónustu og það er hægt að gera innan núgildandi lagaramma. Ég tel að það sé rétt að nefnd, sem Ásmundur Stefánsson er formaður í og vinnur á vegum forsætisráðherra, fari yfir þessi mál sem ég veit að brenna mjög heitt á eldri borgurum, þ.e. búsetuformið, stoðþjónustan, samþætting heimahjúkrunar og félagslegrar heimilisþjónustu og tekjutengingar á bótum almannatrygginga. Ég tel eðlilegt að bíða eftir niðurstöðum þeirrar nefndar áður en farið verður í að skoða lög um málefni aldraðra.