132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Endurskoðun laga um málefni aldraðra.

580. mál
[14:37]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ég verð að byrja á því að lýsa yfir miklum vonbrigðum með svar hæstv. heilbrigðisráðherra sem er ný í embætti en gamalreyndur stjórnmálamaður, sem ég hélt að mundi nota tækifærið til að sýna á spilin og draga upp framtíðarsýn í málefnum aldraðra, stíga fyrstu skrefin í þá átt að afmá þann skammar- og smánarblett sem úrræðaleysið í búsetumálum elsta hóps aldraðra og lífeyrismálum þess hluta aldraðra sem lægstar hafa tekjurnar, er á ríkisstjórn Íslands og ekki síst Framsóknarflokknum. Ætli dapurlegasti kaflinn í ákaflega skrykkjóttri sögu ríkisstjórnarsamstarfs sjálfstæðis- og framsóknarmanna síðasta áratug sé ekki úrræðaleysið og staðan í málefnum aldraðra sem er Framsóknarflokknum til skammar og ríkisstjórninni til skammar. Ég lýsi aftur yfir miklum vonbrigðum með að hæstv. heilbrigðisráðherra skyldi ekki nota tækifærið (Forseti hringir.) og draga upp einhverja mynd af framtíðarsýn sinni í þessum málum.