132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Endurskoðun laga um málefni aldraðra.

580. mál
[14:38]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég verð að lýsa yfir verulegum vonbrigðum með svar hæstv. ráðherra. Það er alveg rétt að staðan í málefnum aldraðra er smánarblettur á þessari ríkisstjórn. Þegar Félag eldri borgara í Reykjavík kemur nú með áskorun á ríkisstjórnina um að endurskoða lögin um málefni aldraðra, sem þeir telja vera byggð á úreltum sjónarmiðum sem eru ekki í takt við nútímaleg viðhorf og dragbít á eðlilega og nauðsynlega framþróun í málaflokknum, þá ætlar hæstv. ráðherra ekkert að gera í málinu heldur bíða eftir Ásmundi Stefánssyni í forsætisráðuneytinu.

Ég get bent hæstv. ráðherra á það að hér er löng áskorun til ríkisstjórnarinnar einmitt um nefndarvinnuna hjá Ásmundi Stefánssyni og krafa um að eitthvað verði gert í tekjutengingunum, sem auðvitað verður að bregðast við, skattleysismörkunum og öllu því regluverki. Ég hef ekki tíma til að fara yfir það. En að ætla ekki að taka á þessum lagabálki núna þegar kosningar nálgast — ég sé ekki annað en að stjórnarflokkarnir séu farnir að veifa og flagga til eldri borgara og ætla að gera allt fyrir þá — en það á ekki einu sinni að taka fyrir lögin um málefni aldraðra og skoða þau í ljósi þeirra ábendinga sem eldri borgarar beina til ríkisstjórnarinnar. Ég er alveg gáttuð á framgöngu hæstv. ráðherra sem er nýkomin í þetta ráðuneyti. Ég ítreka að við eigum langt í land ef við horfum til Norðurlandanna og hvað þjónustan þar er komin lengra. Við erum 10–15 árum á eftir þeim hvað varðar þjónustu við aldraða og valkosti sem þeim standa til boða. Ég hvet hæstv. ráðherra til að skipta um skoðun og taka á þessum málaflokki. Þó að þetta hafi verið endurskoðað 1999 er enn langt í land að lögin séu í takt við samtímann.