132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Endurskoðun laga um málefni aldraðra.

580. mál
[14:40]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Mér finnst þingmenn gera allt of mikið úr því að heildarendurskoðun á lögum aldraðra komi hér og bjargi öllu. Ég held að það sé mikill misskilningur hjá hv. þingmönnum. Þegar ég kom í stól heilbrigðisráðherra gaf ég út tvær línur varðandi mína framtíðarsýn. Það er aukin þjónusta við aldraða og málefni er lúta að lýðheilsu vegna þess að þar held ég að við getum unnið mikið forvarnastarf og brýnt.

Það er auðvitað margt sem brennur á eldri borgurum eins og öðrum þjóðfélagshópum. En það sem hefur kannski helst brunnið á þeim er þjónusta við sjúka aldraða svo og tekjutengingarnar. Það eru einmitt þau mál sem eru til skoðunar og umfjöllunar í nefnd Ásmundar Stefánssonar. Ég bind miklar vonir við það starf sem þar er unnið (ÁRJ: Orðin tóm.) og á von á niðurstöðum úr því starfi, vonandi í haust, frá forsætisráðherra sem skipaði nefndina, niðurstöðu milli stjórnvalda og eldri borgara sem eru í því nefndarstarfi. Ég tel að verið sé að skoða þessi mál af miklum velvilja og heilindum með eldri borgurum, eins og við höfum gert áður og er bara eðlilegt.

Hér var nánast verið að gera grín að nefndastarfi áðan. Ég furða mig á því. Það var mjög öflug nefnd sem starfaði og skilaði tillögum og niðurstöðu árið 2002. Unnið hefur verið eftir því samkomulagi sem þá var gert og staðið við allt. (Gripið fram í: Ekki peningana.) Það var staðið við allt. Það stóð eitt út af sem voru sveigjanleg starfslok, ekki tókst að ljúka því máli. (Forseti hringir.) Það hefur því verið mjög gott samstarf við eldri borgara.