132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Lækkun raforkuverðs.

618. mál
[14:52]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Það er nú þessi stöðuga öfugmælavísa um samkeppni í raforku á markaði hér á Íslandi sem hæstv. ráðherra staglast á og er náttúrlega alveg fráleit.

Ég velti því fyrir mér hvort ráðherra geti upplýst hversu mikið raforka hefði getað lækkað til heimilanna í landinu og til almennra fyrirtækja í landinu ef ekki hefði verið ráðist í síðustu stóriðjuframkvæmdir. Eins og við vitum eru heimilin og fyrirtækin látin greiða niður raforkuna til stóriðjunnar. Hvað hefðum við getað lækkað rafmagnið til almennra notenda mikið ef við hefðum ekki ráðist í þessar stóriðjuframkvæmdir? Hefðum við kannski getað nálgast raforkuverðið í Danmörku, raforkuverð til heimilanna í Danmörku sem er mun lægra en hér? Ég held að það væri mjög fróðlegt fyrir okkur að fá það upp, þegar við förum að meta næstu álversframkvæmdir hæstv. ráðherra og næstu niðurgreiðslur á rafmagni frá almennum notendum til álvera, hver staðan er. (Forseti hringir.) Hvað hefðum við getað sparað okkur mikið og verið með lágt orkuverð (Forseti hringir.) til neytenda ef ekki hefði verið ráðist í neina stórvirkjun?