132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Lækkun raforkuverðs.

618. mál
[14:56]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir svörin og tilkynni jafnframt að ég á eftir að gaumgæfa þau betur þegar ég er búinn að fá þessar tölur á prenti sem hún fór með. Það er hins vegar rétt að draga hér fram að mér sýnist að í svarinu felist að skattlagning orkufyrirtækja hafi fært þann arð sem almenningur átti von á miðað við stefnu ríkisstjórnarinnar frá 1997 til ríkisins. Ekki verður annað ráðið af orðum hæstv. ráðherra. Þegar fyrirtækin eru ekki lengur undanþegin skattskyldu, eins og þau voru, færist sá kostnaður á fyrirtækin, greiðslan rennur til ríkisins en almenningur nýtur ekki þeirrar lækkunar sem hann e.t.v. átti von á.

Hlutafélagavæðingin virðist ekki vera að færa okkur lækkun raforkuverðs og það er líka merkilegt, ef við lítum í skýrslu hæstv. ráðherra, að hér á Íslandi greiðum við, samkvæmt lauslegri áætlun minni, að meðaltali 9,50 kr. fyrir kílóvattstundina. Ef við lítum hins vegar á meðaltöl frá öðrum löndum, og þetta er tala utan skatta og annarra gjalda, sjáum við t.d. að íbúar Finnlands greiða 6,50 kr. á kílóvattstundina, í Svíþjóð 7 kr., í Danmörku 7,70 kr. og í Frakklandi 7,50 kr., svo eitthvað sé nefnt.

Við njótum þess sem sagt ekki, Íslendingar, þ.e. almenningur á Íslandi, í raforkuverðinu sem við gætum átt von á miðað við hversu mikla raforku við framleiðum og miðað við þá stefnumörkun sem hér var lögð upp og ég gerði að umræðuefni.