132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Lækkun raforkuverðs.

618. mál
[14:58]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að taka það fram að það er mjög margt gott að segja um okkar raforkukerfi og raforkumál, ekki síst hvað varðar afhendingaröryggi o.fl. En auðvitað eigum við heima í mjög stóru landi og það kostar þó nokkuð mikið að flytja rafmagn um þetta land (Gripið fram í: Það gera Norðmenn og Svíar líka.) og tiltölulega miklu meira en hvað varðar aðrar Norðurlandaþjóðir. Engu að síður er raforkuverð hér lægra en almennt tíðkast þó að gjarnan hefði mátt muna þar meiru á.

Í máli hv. þingmanna er ýmiss konar misskilningur og þar má finna rangfærslur. Hv. þm. Jón Bjarnason kemur t.d. hér og talar um að stóriðjuframkvæmdir og sala á raforku til stóriðju hafi áhrif á almennt raforkuverð á Íslandi, sem er rangt. Það er algjörlega skilið þar á milli og það þýðir ekkert fyrir hv. þingmann að koma með þessa tuggu hér alltaf aftur og aftur.

Svo er því haldið fram að forsætisráðherra hafi sagt að það mætti ekki hlutafélagavæða raforkufyrirtæki. Ég hef aldrei heyrt hann segja það og ég trúi því ekki að svo sé. Það er hins vegar enginn sérstakur áhugi á því innan Framsóknarflokksins að selja Landsvirkjun en við höfum uppi áform um að hugsanlegt sé að hlutafélagavæða fyrirtækið þegar fram líða stundir. Það verður þó ekki fyrr en við erum komin í gegnum þær stórframkvæmdir sem fyrirtækið stendur nú í og eru á Austurlandi.

Það er hins vegar alls ekki rétt að kerfisbreytingar valdi hér einhverjum miklum hækkunum á raforkuverði, það er bara ekki rétt, ég hef ekki tíma til þess að fara nákvæmar ofan í það. En að hlutafélagavæðingin hafi ekki fært okkur lækkun, við höfum ekkert verið að hlutafélagavæða raforkufyrirtæki nema Orkubú Vestfjarða og hitt er ekkert komið til framkvæmda eins og hvað varðar Rarik, það er mál sem er hér í þinginu.

Ég vil bara endurtaka að í rauninni er um að ræða lækkun á gjaldskrá Landsvirkjunar þegar við horfum á tímabilið 2001–2006, sem er hægt að tala um sem 31% ef við miðum við neysluverðsvísitöluna.