132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Álver og stórvirkjanir á Norðurlandi.

626. mál
[15:01]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Það er eitthvað svo sérstakt með okkur Norðlendinga að iðnaðarráðherra hefur einstaklega gaman af að gera hjá okkur skoðanakannanir. Fyrir um ári síðan stóð ég í þessum ræðustól hér og spurði hæstv. iðnaðarráðherra þá um nýafstaðna skoðanakönnun sem hæstv. ráðherra hafði beitt sér fyrir meðal Norðlendinga um afstöðu til álvera í Skagafirði, Eyjafirði og Þingeyjarsýslum. Maður gæti haldið að það hefði þá verið nóg fyrir ráðherrann að gera eina slíka könnun. Nei, hún er endurtekin nú ári seinna, þá gerir iðnaðarráðherra aftur skoðanakönnun meðal Norðlendinga um afstöðu til álvers og stórvirkjana.

Nú eru skoðanakannanir oft hluti af áróðurstæki og ég skil alveg þannig séð hæstv. ráðherra sem hefur slíkan brennandi áhuga á álverum að það hálfa væri nóg, að hún beiti skoðanakönnunum til að þvinga sjónarmið sín áfram. Það sem vakti þó sérstaklega athygli við þessa síðustu skoðanakönnun var að þar var ekki aðeins spurt um afstöðuna til álvers og til vatnsaflsvirkjana heldur voru menn spurðir, en á þriðja þúsund manns á Norðurlandi voru spurðir, hvaða flokk þeir mundu kjósa ef kosið yrði á morgun, það var síðasta spurningin í skoðanakönnuninni.

Það kom mjög flatt upp á fólk að fá svona spurningu. Þegar eftir var leitað hver hefði óskað eftir að þessi spurning væri í skoðanakönnuninni lá ljóst fyrir að það var iðnaðarráðherra sem hafði óskað eftir þeim spurningum sem þarna var spurt, en þegar gengið var eftir því hvort iðnaðarráðherra hefði líka óskað eftir því að spurt væri hvaða flokk þeir kysu þá varð nú færra um svör. Seinna hefur svo verið upplýst í blöðum, í blaðaviðtali segir Gallup að þetta hafi verið mistök af þeirra hálfu eftir að nokkrar skeytasendingar höfðu farið á milli iðnaðarráðuneytis og Gallups, þá hefðu það verið mistök af þeirra hálfu að spyrja spurninga um stjórnmálaskoðanir.

Ég vil þó spyrja hæstv. ráðherra nánar út í þetta, í fyrsta lagi:

Hvað þurfti iðnaðarráðuneytið að greiða fyrir nýlegar skoðanakannanir meðal Norðlendinga um viðhorf þeirra til álvera og stórvirkjana í fjórðungnum? En þetta var nú í annað sinn á um ári sem spurt er sömu spurninga.

Í öðru lagi: Hvers vegna bauð ráðuneytið ekki upp á annan kost í atvinnumálum en álver í spurningalistanum? Spurt var nákvæmlega að þessu sama fyrir ári síðan. Hefði nú ekki verið svolítið vitlegra að spyrja: Hvað viltu annað en álver í stað þess að stilla eingöngu upp einum (Forseti hringir.) valkosti í annað sinn?

Í þriðja lagi er spurt hvort ráðherra telji viðeigandi (Forseti hringir.) að spurt sé um stjórnmálaskoðanir í þessu samhengi.