132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Álver og stórvirkjanir á Norðurlandi.

626. mál
[15:06]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Spurt er:

„1. Hvað þurfti iðnaðarráðuneytið að greiða fyrir nýlegar skoðanakannanir meðal Norðlendinga um viðhorf þeirra til álvera og stórvirkjana í fjórðungnum?“

Svar: IMG Gallup framkvæmdi viðhorfsrannsókn með slembiúrtaki úr þjóðskrá meðal fólks í Skagafirði, Akureyri, Eyjafirði og Þingeyjarsýslum í febrúar sl. Rannsóknin kostaði 1.153.450 kr. án virðisaukaskatts.

„2. Hvers vegna bauð ráðuneytið ekki upp á annan kost í atvinnumálum en álver í spurningalistanum?“

Svar: Viðhorfskönnunin fór fram í tengslum við samanburðarathugun á byggingu álvers á þremur iðnaðarlóðum á Norðurlandi, Brimnesi í Skagafirði, Dysnesi í Eyjafirði og Bakka við Húsavík. Sú athugun var unnin samkvæmt aðgerðaáætlun frá 20. júní 2005 með aðild Fjárfestingastofunnar, Sveitarfélagsins Skagafjarðar, Akureyrarbæjar, Húsavíkurbæjar, Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga og Alcoa. Aðrir kostir í atvinnumálum voru ekki til skoðunar í því verkefni.

„3. Telur ráðherra viðeigandi að ráðuneytið spyrji um stjórnmálaskoðanir fólks, sbr. það að lokaspurningin í álverskönnun ráðuneytisins var um það hvaða stjórnmálaflokk viðmælandi mundi kjósa ef gengið yrði til alþingiskosninga daginn eftir? Hvers vegna voru niðurstöður svara við þeirri spurningu ekki birtar?“

Svar: Ráðuneytið óskaði ekki eftir því að spurt væri um stjórnmálaskoðanir fólks og gat því ekki birt slíkar niðurstöður.