132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Álver og stórvirkjanir á Norðurlandi.

626. mál
[15:06]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Álversæði Framsóknarflokksins á sér margar birtingarmyndir. Ein er sú örvæntingarfulla tilraun flokksins til að sýna fram á að fólk úti um allt land og í öllum fjórðungum vilji álver. Varðandi spurningu nr. 2, hvers vegna ráðuneytið hafi ekki boðið upp á annan kost í atvinnumálum en álver, þá dæmir spurningin í raun og veru niðurstöðurnar úr leik í könnuninni.

Nú er IMG Gallup vandað og gott fyrirtæki og enginn efast um að það standi vel verki. En að gefa ekki upp aðra kosti í atvinnumálum en álver, eins og hér kemur fram, eyðileggur þessa skoðanakönnun algjörlega og gerir niðurstöðuna ómarktæka til að meta það hvort fólkið þarna vilji álver eða ekki. Það verður að gefa kosti á fleiri færum en einungis álversuppbyggingu. Það er algjört grundvallaratriði og þess vegna er þessi skoðanakönnun ónýt og sýnir ekki fram á vilja fólksins um hvort það (Forseti hringir.) vilji álver eða ekki.