132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Álver og stórvirkjanir á Norðurlandi.

626. mál
[15:08]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ef hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra segir að ráðuneytið hafi ekki beðið um spurningu um stjórnmálaskoðanir fólks í þessari könnun þá trúi ég henni. Það vekur hins vegar spurningar um fyrirtækið sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson var að segja að væri gott fyrirtæki.

Er það svo ef aðilar eða einstaklingar óska eftir því að framkvæmd sé rækileg könnun á einhverju tilteknu máli þá geti skoðanakannanafyrirtækið hnýtt við spurningu um stjórnmálaskoðanir viðkomandi fólks? Ég held að svo sé ekki. Og ég er ekki viss um að þetta sé í anda góðrar háttsemi fyrirtækja af þessu tagi. Ég held að menn hljóti að þurfa að spyrja spurninga út í skoðanakönnunarfyrirtækið Gallup sem gerir þetta að eigin frumkvæði. Er það að gera einhverjar kannanir sem ekki er verið að biðja um og tengja við kannanir af þessu tagi? Þetta finnst mér gefa tilefni til þess að menn skoði þessi vinnubrögð Gallups.