132. löggjafarþing — 92. fundur,  22. mars 2006.

Forgangsröð í heilbrigðiskerfinu.

[15:37]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Hv. 9. þm. Reykv. s. vill með umræðum utan dagskrár beina athyglinni að drögum að frumvarpi um heilbrigðisþjónustu og skýrslu nefndar, skýrslan heitir Hver gerir hvað í heilbrigðisþjónustunni?, sem kennd er við hv. þm. Jónínu Bjartmarz. En sú skýrsla er umfram allt tillaga höfunda hennar og hvatning til manna um að ræða m.a. um heilbrigðisþjónustuna og fjármögnun hennar.

Málshefjandi spyr, í framhaldi af þessari hvatningu, hvort ráðherra telji það t.d. koma til greina að heimila fólki að kaupa sig fram fyrir í röð í heilbrigðiskerfinu. Það er rétt að taka það fram að nefndin leggur ekkert slíkt fram heldur veltir upp þessum möguleika til umræðu. Ég vil líka draga það fram að í nefndinni voru fulltrúar frá þremur stjórnmálaflokkum og þar á meðal stjórnarandstöðunni þannig að þetta er lagt fram til umræðu. (ÖJ: Hvaða flokki stjórnarandstöðu?) Það var fulltrúi frá Samfylkingunni í þessari nefnd. Það er engin tillaga um að fara þessa leið en henni er velt upp til umræðu.

Ég hef sagt það opinberlega sem heilbrigðisráðherra að mér hugnist ekki slík leið og raunar hefur hæstv. forsætisráðherra tjáð sig með sama hætti þannig að það er algjörlega ljóst að okkur hugnast ekki sú leið. En það er rétt, sem kom fram hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni, að ýmsir aðilar í samfélaginu telja að það sé eðlilegt að stíga það skref, m.a. hefur eitt af dagblöðunum hér fjallað um það og aðrir hagsmunaaðilar. Það er því ágætt að fá fram þá afstöðu í þessari umræðu að heilbrigðismálayfirvöld vilja ekki stíga þetta skref.

Í ljósi umræðu um vaxandi fjárþörf heilbrigðisþjónustunnar hefur því verið hreyft að undanförnu að auðvelda einstaklingum, sem eru tilbúnir til þess að greiða meira úr sínum vasa í almennan sjúklingahlut, aðgang að heilbrigðisþjónustunni þannig að hann væri betri en aðgangur annarra. En með slíku kerfi er að mínu mati verið að koma á tvöföldu heilbrigðiskerfi, einu fyrir hina efnameiri og öðru fyrir hina og það hugnast mér ekki. Það sjónarmið væri hvorki í anda stefnu Framsóknarflokksins né stjórnarsáttmálans frá 2003, en þar er undirstrikað að allir landsmenn eigi að hafa greiðan aðgang og jafnan að heilbrigðisþjónustu óháð aldri, búsetu og efnahag.

Það er hins vegar eðlilegt að ræða, eins og fram kemur í skýrslunni, um fjármögnun t.d. sjúkrahúsanna og nýjar hugmyndir í því. Þar er sérstaklega minnst á svokallaðar DRG-greiðslur og ég tel eðlilegt að það verði rætt frekar í framhaldi af þessari skýrslu.

Hv. þingmaður spyr hvort ríkisstjórnin muni leggja fram frumvarp um ný heilbrigðislög ef sýnt verður fram á að þau opni enn frekar á markaðsvæðingu heilbrigðisþjónustunnar en nú er og þar með aukna mismunun frá því sem nú er. Virðulegur forseti. Ég tel mjög mikilvægt að leggja fram til kynningar á Alþingi frumvarp til laga um heilbrigðisþjónustu í vor. Það er ekkert að mínum dómi í þeim drögum sem þar liggja til grundvallar sem opnar á einhverja frekari markaðsvæðingu en er í dag. Við vitum að í heilbrigðisþjónustunni í dag er rekstur mjög fjölbreyttur. Það eru sjálfseignarstofnanir, opinberar stofnanir og fyrirtæki sem hafa gert samninga þannig að reksturinn er margbreytilegur og sumir hafa talið það vera mikinn styrk í íslenskri heilbrigðisþjónustu. En í þessum mismunandi rekstri, það er mismunandi rekstur og mismunandi eignarhald, hefur það alltaf verið grundvallaratriði að aðgengi þeirra sem sækja sér þjónustuna eða njóta umönnunarinnar sé óháð efnahag, það er grundvallarstefið í okkar heilbrigðisþjónustu og það er ekkert sem liggur á borðinu um að breyta því.

Hér er líka spurt hvort heilbrigðisráðherra sé tilbúinn til þess að efna til víðtækrar umræðu. Ég segi já, að sjálfsögðu vil ég efna til víðtækrar umræðu um þessi mál. Þegar frumvarpsdrögin koma fram gefst tilefni til víðtækrar umræðu. Nokkur skjöl liggja til grundvallar og takist mér að koma frumvarpinu fram í vor, sem ég vona að verði, það er verið að vinna í því núna, gefst tækifæri til þess að ræða þetta allt saman. En ég geri ekki ráð fyrir því að geta klárað þetta mál í vor. Ég tel að svona mál þurfi ákveðið þroskaferli en ég vona að ég geti lagt það fram í endanlegum frumvarpsdrögum næsta haust.