132. löggjafarþing — 92. fundur,  22. mars 2006.

Forgangsröð í heilbrigðiskerfinu.

[15:44]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Hér er spurt hvort leyfa eigi þeim ríku að borga sig fram fyrir þá efnaminni í heilbrigðisþjónustu.

Sjúkratryggingakerfið hér á landi byggist á jöfnum rétti allra til heilbrigðisþjónustu. Ýmsar aðrar þjóðir hafa skipað málum sínum á þann veg að einungis hinir efnaminni njóti heilbrigðisþjónustu sem að mestu er greidd af ríkinu en hinir efnameiri kaupi sér sjálfir sjúkratryggingar eða beri sjálfir kostnað af heilbrigðisþjónustu úr eigin vasa. Þessa leið höfum við ekki viljað fara.

Viðfangsefnið sem við fjöllum um hér gengur út frá því að biðlistar eftir heilbrigðisþjónustu séu óbreytanleg staðreynd sem ekki sé hægt að ráða bót á. Það er nú svo að ef ekki eru biðlistar eftir þjónustu er ekki heldur þörf á að borga sig framar í röðina. Ég vil því nálgast þetta umræðuefni með öðrum formerkjum. Biðlistar eru merki um skipulagsvanda. Með því að styrkja stöðu stjórnvalda sem kaupanda heilbrigðisþjónustu er hægt að ráða bót á slíkum vanda. Stjórnvöld eiga að hafa það hlutverk að meta þörf fyrir þjónustu og umfang hennar og semja við einkaaðila eða eigin stofnanir um að veita þjónustuna. Með þessari nálgun er mögulegt að útrýma biðlistum.

Jafnframt vil ég skilgreina mun betur en gert er í dag hvað felst í því að vera sjúkratryggður. Það þarf að skilgreina hver er réttur einstaklinga til þjónustu í heilbrigðiskerfi sem er greitt af opinberu fé og hver er réttur viðkomandi ef hann fær ekki þjónustuna innan tilskilins tíma. Danir hafa t.d. sett þær reglur að fái viðkomandi ekki þá meðferð sem hann á rétt á innan tveggja mánaða á opinberum heilbrigðisstofnunum getur hann leitað til annarra aðila, m.a. til útlanda, og er meðferðin greidd af danska sjúkratryggingakerfinu. Hér er rétturinn skilgreindur út frá einstaklingnum óháð efnahag.

Virðulegi forseti. Á hinn bóginn tel ég rétt að skoða hvort sjúklingar eigi að hafa meira val um viðbótarþjónustu á heilbrigðisstofnunum sem þeir geta ráðið hvort þeir kaupa. Hér á ég t.d. við val á mat eða öðrum þáttum sem geta verið til aukinna þæginda eða hægðarauka. Í því felst aukið sjálfræði sjúklinga sem sjálfsagt er að virða.