132. löggjafarþing — 92. fundur,  22. mars 2006.

Forgangsröð í heilbrigðiskerfinu.

[15:49]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Fyrir skömmu var efnt til opins kynningar- og umræðufundar um nýjar niðurstöður tveggja nefnda sem báðar fjölluðu um grundvallaratriði og lagaramma sem íslensku heilbrigðiskerfi er ætlað að mótast af á komandi árum, eins og fram kom í kynningu.

Í annarri nefndinni átti að móta lagarammann en í hinni að fjalla sérstaklega um hlutverk og verkaskiptingu innan sjúkrahúsanna. Þess skyldi gætt að samhljómur væri í niðurstöðum nefndanna. Að gefinni þessari forsendu er ljóst að sá tónn markaðsvæðingar sem sleginn er í áliti nefndar um endurskilgreiningu verksviða innan heilbrigðisþjónustunnar vekur upp margar spurningar. Hugmyndir eru settar fram til umræðu og skoðunar. Hugmyndir um breytta fjármögnun sjúkrahússþjónustunnar, sem flestar lúta að hugmyndafræði markaðsvæðingar. Þar er áherslan lögð á samkeppni milli sjúkrahússtengdrar og einkarekinnar heilbrigðisþjónustu og tvöfalt kerfi þar sem hægt sé að kaupa sér forgang og betri þjónustu, þ.e. ávísað á einkagreiðslur og ójöfnuð innan heilbrigðisþjónustunnar.

Samkvæmt þeim tillögum eða hugmyndum sem fram eru settar mun greiðsluþátttaka sjúklinga aukast innan sjúkrahússþjónustunnar. Þar sem mikið samráð var haft í starfi nefndanna er ljóst að innleiða á markaðsvæðingu heilbrigðiskerfisins. Ef það er ekki ætlunin verða stjórnarliðar að tala skýrt og sleppa því að setja fram hugmyndir til umræðu og skoðunar sem ekki verða teknar upp við framkvæmd nýrra laga.

Hæstv. heilbrigðisráðherra getur ekki fullyrt að ekki standi til að breyta núverandi greiðsluþátttöku sjúklinga og koma á tvöföldu heilbrigðiskerfi og á sama tíma borið ábyrgð á áliti sem dregur fram hið gagnstæða.