132. löggjafarþing — 92. fundur,  22. mars 2006.

Forgangsröð í heilbrigðiskerfinu.

[15:51]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F):

Frú forseti. Ég veit ekki hvort það er viljandi eða óviljandi að menn misskilja eða mistúlka skýrslu þessarar nefndar. En viljum við forgang hinna ríku á heilbrigðisþjónustu og lakari þjónustu fyrir hina efnaminni? Nei, allir íslensku stjórnmálaflokkarnir, allir flokkarnir á þingi, leggja áherslu á jafnræði og jafnt aðgengi allra. Nefndin sem skipuð var fulltrúum þriggja flokka á þingi sem skilaði ráðherra skýrslu sinni er sama sinnis. Sú afstaða nefndarinnar er grundvöllur að öllum tillögum sem frá nefndinni koma, svo við höldum því til haga. Jafnræði óháð efnahag.

Nefndinni var falið að gera tilteknar tillögur til ráðherra. Ég ætla að leiðrétta að ráðherra ber ekki ábyrgð á efni skýrslunnar eða tillögunum. Henni var falið að gera tilteknar tillögur til ráðherra um endurskilgreiningu verksviða LSH og FSA. Við áttum að horfa til framtíðar, breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar, samgangna, mannfjöldaspár o.s.frv. Nefndin öll, óskipt og í fullri sátt, skilaði ráðherra sjö veigamiklum tillögum sem allar miða að því að efla heilbrigðisþjónustuna til hagsbóta fyrir sjúklinga, þ.e. gera skýrari verkaskiptingu og ábyrgð; auka gagnsæi, m.a. með kostnaðargreiningu; auka skilvirkni og hagkvæmni í rekstri heilbrigðisþjónustunnar. Út á þetta ganga sjö veigamiklar tillögur nefndarinnar. Þær lutu að því að efla stóru sjúkrahúsin, bæði heilbrigðisþjónustuhlutverk þeirra og menntahlutverkið. Þær lutu að uppskiptingu kaupenda- og seljendahlutverksins, þverfaglegri ráðgefandi nefnd sem m.a. á að hafa þarfagreiningu á hendi og endurskoðun og samræmingu þjónustugjalda.

Nefndin hvatti til opinnar, heiðarlegrar umræðu um hvernig ætti að mæta ört vaxandi fjárþörf í heilbrigðiskerfinu vegna vaxandi framboðs og vaxandi eftirspurnar. Það gerði nefndin (Forseti hringir.) og hún hvatti til að við ræddum um hvort hækka ætti framlög á fjárlögum (Forseti hringir.) eða þjónustugjöld. Það er aðeins Morgunblaðið sem hefur talað fyrir að hinir efnameiri geti (Forseti hringir.) keypt sig fram fyrir.