132. löggjafarþing — 92. fundur,  22. mars 2006.

Forgangsröð í heilbrigðiskerfinu.

[15:59]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Umræðan snýst um hvort leyfa eigi mismunun í heilbrigðiskerfinu. Enginn segist vilja það. Samt tala óþægilega margir sem hér hafa tekið til máls fyrir því að sjálfur grundvöllur heilbrigðisþjónustunnar verði markaðsvæddur.

Ef við förum út á þá braut að skipuleggja heilbrigðisþjónustuna á grundvelli viðskipta mun það óhjákvæmilega leiða til félagslegrar mismununar, jafnvel þótt félagslega sé staðið að fjármögnun kerfisins. Þetta kennir reynslan og hún kennir líka að slíkt kerfi er dýrara og óhagkvæmara.

Bæði hæstv. ráðherra og hv. þm. Jónína Bjartmarz segja að menn tíni til einstök dæmi úr skýrslunni sem hér er vísað til. Það er alrangt. Öll þessi skýrsla byggir á markaðshugsun. Allt gengur út á að samræma eftir föngum reglur og viðmið í hinu opinbera kerfi og hinu einkarekna. Þar vísa ég t.d. til greiðslu fyrir ferliverk innan og utan sjúkrahúsa og háskólakennslu á einkareknum stofum.

Varaformaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson, segir að stefna Samfylkingarinnar sé skýr. Ja, það er nú það. Vissulega var skýr fyrirsögnin á greininni sem hann skrifaði í Morgunblaðið 29. september, þar sem segir:

„Aukum vægi einkareksturs í heilbrigðisþjónustu“, en þar er vísað til einkareksturs í heilsugæslu, heimaþjónustu, endurhæfingu, rannsóknum, öldrunarþjónustu, geðheilbrigðisþjónustu og í margvíslegri stoðþjónustu heilbrigðisstofnana, t.d. í mötuneytum og ræstingum. Það getur vel verið að í þessu felist sóknarfæri fyrir markaðsöflin. En ég veit að fyrir ræstingarfólkið hefur þetta ekki verið til góðs.

Hæstv. ráðherra og þeir sem hafa talað fyrir hönd ríkisstjórnarinnar reyna að þvo hendur sínar af þessari skýrslu og markaðshugmyndum í frumvarpsdrögum sem nú liggja fyrir. Það er vel (Forseti hringir.) og ég fagna því að nú verði efnt til víðtækrar umræðu (Forseti hringir.) um þau gögn sem verða lögð fyrir þingið.