132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Skipun ráðuneytisstjóra í félagsmálaráðuneyti.

[15:04]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Í stefnuræðu sinni færði hæstv. forsætisráðherra það í tal að taka ætti til í stjórnsýslu landsins. Hann boðaði einfaldara Ísland. Ég er á því að áður en hann fer í það ágæta verkefni taki hann hæstvirta ráðherra ríkisstjórnarinnar á námskeið, og það gæti heitið „Förum að reglum, a.m.k. það sem eftir er kjörtímabilsins“. Ekki veitir af. Nýleg niðurstaða umboðsmanns Alþingis um ráðningu ráðuneytisstjóra í félagsmálaráðuneytinu er mikill áfellisdómur yfir störfum ráðuneytisins. Í úrskurðinum segir að verulegir annmarkar hafi verið á meðferð ráðuneytisins í umræddu stjórnsýslumáli. Af yfirlýsingum hæstv. forsætisráðherra má ætla að hann geri sér ekki grein fyrir alvarleika málsins eða, sem verra er, að hann reyni að snúa út úr úrskurði eftirlitsmanns með stjórnsýslu landsins. Það er gríðarlega alvarlegt.

Ráðherra hefur látið í veðri vaka að ekkert sé aðfinnsluvert við ráðninguna sem slíka og ætla má að hann ætli að halda uppteknum hætti. Mér finnst það mjög alvarlegt. Ég verð að segja að það er miður að hæstv. forsætisráðherra sé ekki hér til að svara fyrir málið en að hér sitji hæstv. félagsmálaráðherra sem virðist oft sitja eftir með svartapétur, þurfa að svara fyrir vond verk, svo sem fyrir svikin gagnvart öryrkjunum sem hann handsalaði samning við í Þjóðmenningarhúsinu. Það sem fyrst og fremst kemur fram í úrskurði umboðsmanns Alþingis er að í rauninni hafi ekki verið farið eftir reglum í þessu máli. Það var ekki gert upp á milli umsækjenda á málefnalegan hátt og ekki með þeim hætti sem ráðuneytið sagðist sjálft hafa gert (Forseti hringir.) í bréfaskiptum við umboðsmanninn. Það er gríðarlega alvarlegt.